Jakob Tryggvason fæddist á Ytra-Hvarfi í Svarfaðardal 31.1. 1907, sonur Tryggva Jóhannssonar, bónda þar, og Guðrúnar Soffíu Stefánsdóttur húsfreyju.

Jakob Tryggvason fæddist á Ytra-Hvarfi í Svarfaðardal 31.1. 1907, sonur Tryggva Jóhannssonar, bónda þar, og Guðrúnar Soffíu Stefánsdóttur húsfreyju.

Kona Jakobs var Unnur Tryggvadóttir sem lést 1987 og eignuðust þau þrjú börn, Nönnu fiðluleikara sem lést 1988; Soffíu leikkonu, og Tryggva Kristin landafræðing.

Jakob var um fermingaraldur er hann hóf nám í orgelleik hjá Tryggva Kristinssyni, síðar tengdaföður sínum, sem þá var organisti í Vallaprestakalli. Hann fór til Reykjavíkur 1927, stundaði nám við Samvinnuskólann og sótti tíma hjá Sigurði Frímannssyni organista, lauk samvinnuskólaprófi 1927, flutti þá norður aftur og starfaði á skrifstofu Kaupfélags Eyfirðinga. Árið 1931 fór hann í einkatíma til Páls Ísólfssonar í Reykjavík, var í Tónlistarskólanum þar til 1938 og starfaði jafnframt á Skattstofu Reykjavíkur.

Jakob varð organisti við Akureyrarkirkju 1941 og sinnti því starfi til 1945. Þá fór hann til framhaldsnáms við The Royal Academy of Music í London til 1948. Frá þeim tíma var hann organisti við Akureyrarkirkju óslitið til ársins 1986.

Jakob var kennari og skólastjóri við Tónlistarskóla Akureyrar um árabil, frá 1950-74, stjórnaði Lúðrasveit Akureyrar um tuttugu ára skeið, Lúðrasveit Barnaskóla Akureyrar um árabil og kenndi tónmennt við Oddeyrarskóla. Hann þjálfaði Smárakvartettinn á Akureyri og síðar Geysiskvartettinn og lék undir með þeim báðum. Þá stjórnaði hann kvennakórnum Gígjunum á Akureyri.

Eftir Jakob liggur fjöldi útsetninga á sönglögum og kirkjutónlist, auk nokkurra frumsaminna verka.

Jakob var kjörinn heiðursfélagi Lúðrasveitar Akureyrar 1967, Félags íslenskra organleikara árið 1991 og Kórs Glerárkirkju árið 1994. Hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 1980.

Jakob lést 13.3. 1999.