Eystri Landsréttur Danmerkur dæmdi Rikke Louise Andersen til þess að greiða 5.000 danskar krónur í sekt fyrir að hafa birt mynd af manni sem beraði sig fyrir framan dóttur hennar á Facebook.

Eystri Landsréttur Danmerkur dæmdi Rikke Louise Andersen til þess að greiða 5.000 danskar krónur í sekt fyrir að hafa birt mynd af manni sem beraði sig fyrir framan dóttur hennar á Facebook. Andersen fékk mynd af atburðinum úr öryggismyndavél og birti á Facebook síðu sinni og fékk færslan yfir 1000 deilingar. Taldist myndbirtingin brot á dönskum persónuverndarlögum og var henni gert að greiða sekt. Í samtali við danska fjölmiðilinn Politiken segir Andersen að hún myndi ekki hika við að gera þetta aftur.

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar á Íslandi, segir nauðsynlegt að horfa á atburðina sem tvö aðskilin brot. Bendir hún jafnframt á að á Íslandi er ekki heimilt að birta myndefni sem verður til við rafræna vöktun ef um mögulegt brot er að ræða. „Ef það sést að það er mögulegt brot á persónuverndarlögum sem er að eiga sér stað, þ.e. grunur um refsiverðan verknað, þá er einungis heimilt að afhenda lögreglu slíkt myndefni og það er þá lögreglu að ákveða að birta mynd af viðkomandi,“ segir Helga.

Persónuvernd hefur áður úrskurðað um slíkt hérlendis er Íslendingur birti skjáskot úr öryggismyndavél af manni sem hafði tekið úlpu í misgripum á KFC. Hann fékk myndina úr öryggismyndavélum KFC og óskaði eftir aðstoð við að finna „þjófinn“ en slík myndbirting var talin óheimil. mhj@mbl.is