Oddur Þór Þórisson fæddist í Reykjavík 28. maí 1996. Hann lést af slysförum 11. janúar 2018.

Foreldrar hans eru Margrét Magnúsdóttir, f. 15.5. 1967, d. 24.2. 2008, og Þórir Ófeigsson, f. 18.8. 1966. Sonur þeirra er Sindri Dagur Þórisson, f. 23.6. 1999. Foreldrar Margrétar eru Magnús Björnsson, f. 1.9. 1942, d. 26.2. 2014, og Hallfríður Kristín Skúladóttir, f. 19.3. 1945. Foreldrar Þóris eru Ófeigur Geirmundsson, f. 1.9. 1943, og Anna Margrét Ögmundsdóttir, f. 20.6. 1944. Dóttir Þóris er Sara Þórisdóttir, f. 14.7. 2004. Sambýliskona Þóris er Sigurbjörg Björgúlfsdóttir, f. 7.5. 1970, sonur þeirra er Úlfhéðinn Þórisson, f. 5.9. 2007. Dætur Sigurbjargar eru Álfheiður Fanney Ásmundardóttir, f. 6.4. 2000, og Ásrún Ásta Ásmundardóttir, f. 21.1. 2002, og fóstursonur Stefán Smári Ásmundarson, f. 5.12. 1988. Foreldrar Sigurbjargar eru Björgúlfur Þorvarðarson, f. 7.10. 1938, og Pálína Jónsdóttir, f. 20.12. 1941.

Oddur ólst upp í Vogahverfinu í Reykjavík og gekk í Vogaskóla. Hann flutti á Hellu haustið 2006 og gekk í Grunnskólann á Hellu. Hann var um tíma nemandi í Fjölbrautaskóla Suðurlands og Borgarholtsskóla. Meðfram námi og á sumrin vann hann í Reykjagarði, Bifreiðaverkstæðinu Rauðalæk, Glerverksmiðjunni Samverk, AB varahlutum á Selfossi og nú síðast hjá Borgarverki. Hann var félagi í Flugbjörgunarsveitinni á Hellu.

Oddur Þór var mikill áhugamaður um bíla og einkum Subaru. Hann var lífsglaður, hjartahlýr, uppátækjasamur og góður drengur sem lætur eftir sig stóran hóp vina.

Útför hans verður gerð frá Selfosskirkju í dag, 31. janúar 2018, kl. 14.

Í dag kveð ég elsku bróðurson minn, Odd Þór. Skrefin eru þung, þau þyngstu sem ég hef stigið. Tárin eru mörg, þau flestu sem hafa fallið.

Mikið er sárt að þurfa að kveðja þig svona fljótt.

Sár söknuður okkar lýsir helst þeim mikla kærleik sem þú færðir okkur. Þín

Anna Dóra.

Elsku Oddur frændi minn lést af slysförum og sorgin er ólýsanleg. Þegar Oddur kom í heiminn var hann sólargeislinn okkar í fjölskyldunni, sem nú lýsir áfram í hjörtum okkar.

Dýrmætu minningarnar sem við eigum frá því hann var lítill drengur í Vogahverfinu og eftir að hann flutti síðan á Hellu um 10 ára aldur hjálpa okkur í þessari miklu sorg.

Þær eru ótal stundirnar sem við áttum saman í Vatnsdal í Húnavatnssýslunni. Þar naut Oddur sín vel í náttúrunni og þar sem hann var laghentur allt frá unga aldri þá bjó hann til ýmsa hluti sem nýttust vel í sveitinni. Má þar nefna útisturtu sem kom sér vel á heitum sumardögum. Hann bjó til ævintýralegan kofa í sveitinni með bróður sínum, föður og Magnúsi afa. Þessi kofi fékk nafnið Kettlingakot og vekur enn alltaf mikla gleði hjá yngri kynslóðinni.

Þær eru margar minningarnar úr eldhúsinu sem ég á um Odd að baka með ömmu Haddý og var skúffukaka í miklu uppáhaldi. En það sem átti hug hans allan voru bílar sem hann starfaði við til síðasta dags.

Ég var svo lánsöm að þegar Oddur ákvað að koma í skóla til Reykjavíkur þá dvaldi hann hjá mér. Við áttum margar stundir þar sem við spjölluðum um lífið og tilveruna. Móðurmissirinn, þegar hann var 11 ára gamall, var honum erfiður en Oddur var umvafinn kærleik ættingja og vina. Með ást, dug og dáð sköpuðu Þórir og Sigurbjörg dýrmæta fjölskyldu saman. Það segir mikið til um hversu lífið á Hellu var Oddi mikilvægt því skólavistin hans í borginni var stutt. Hann naut sín best á Hellu með fjölskyldunni og vinum.

Um jólahátíðina hitti ég Odd í síðasta sinn og þá ræddum við um að hittast oftar á nýju ári. En nú er Oddur kominn í faðm móður sinnar og við sem lifum varðveitum minningarnar um ljúfan, góðan og yndislegan dreng.

Ég sendi ykkur allan þann styrk og kærleik sem ég hef að gefa ykkur, elsku Þórir, Sigurbjörg og fjölskylda, á þessari miklu sorgarstundu. Megi minning Odds vera ljós í lífi okkar.

Elsa Lyng Magnúsdóttir (Elsa frænka).

Við munum þegar Sigga vinkona hafði samband og tjáði okkur að nú væri hún búin að ná okkur. Hún hefði kynnst manni sem ætti þrjú börn og þar með væru börnin hennar orðin sex að tölu! Toppið það, hafði hún á orði. Enn stækkaði hópurinn er Úlfhéðinn fæddist, saman héldu þau Sigga og Þórir heimili og umvöfðu stóra hópinn sinn. Þau komu sér vel fyrir á Laufskálum á Hellu. Bjuggu til fallegar minningar með samverustundum, ferðuðust innanlands og utan og höfðu það gaman saman. Þau voru höfðingjar heim að sækja og hefur alltaf ríkt tilhlökkun að líta inn hjá þeim og eiga með fjölskyldunni gleðistund.

Oddur var ætíð brosmildur og ljúfur. Hann var drengur góður. Við þökkum góð kynni af skemmtilegum strák og þeim myndarlega unga manni sem hann Oddur var orðinn. Við biðjum Guð að blessa barnið ykkar og styrkja ykkur, elsku vinir, í sorginni.

Sigríður (Sigga), Eyjólfur (Eyi) og dætur.

Það voru sorglegar fréttir sem við bekkjarsystkinin fengum fimmtudaginn 11. janúar að bekkjarbróðir okkar, Oddur Þór, væri fallinn frá langt um aldur fram. Óréttlæti örlaganna er oft á tíðum yfirþyrmandi en eftir situr minning um einstaklega góðan vin.

Við kynntumst Oddi Þór þegar hann ásamt fjölskyldu sinni flutti á Hellu og byrjaði með okkur í bekk. Oddur var ekki lengi að falla inn í hópinn, enda var hann góður, fyndinn, einstaklega hjartahlýr og uppátækjasamur.

Oddur var einstakur dýravinur. Við fengum það verkefni þegar við vorum í 6. bekk að hugsa um hænuunga í skólanum í þrjá daga, þegar komið var að því að kveðja ungana og kennarinn ætlaði að skila unganum var Oddur ekkert sérstaklega hrifinn af þeirri hugmynd og fékk að eiga sinn unga.

Oddur var alltaf til í sprell og annan fíflaskap sem við tókum upp á á þessum árum, enda var árgangurinn þekktur fyrir lítið annað. Þó svo að bekkurinn hittist lítið eftir útskrift þá er það samheldnin og vináttan sem rofnar aldrei.

Elsku Þórir, Sigurbjörg og fjölskylda, við sendum ykkur okkar dýpstu samúðarkveðju. Hugur okkar er hjá ykkur á þessum erfiðu tímum. Megi Guð fylgja ykkur og veita ykkur styrk. Minningin um yndislegan dreng lifir í hjörtum okkar sem hann þekktum.

Fyrir hönd bekkjarfélaga Grunnskólans á Hellu, árg. 1996,

Guðrún Jóna Ólafsdóttir.

Elsku hjartans gullið mitt, þú varst svo yndislegur drengur. Þegar þú fæddist þá var ég svo hamingjusöm, þú varst fyrsta barnabarnið mitt. Frá fyrsta degi varst þú svo athafnasamur, alltaf til í að vera að gera eitthvað. Ég man svo vel þegar þú varst lítill drengur, þá varstu alltaf svo duglegur að hjálpa mér í eldhúsinu og langskemmtilegast var að smyrja kökuformin og baka kökur.

Minningarnar úr sveitinni okkar, Vinaminni í Vatnsdal, eru mér dýrmætar. Þar undir þú þér vel þar sem þú varst alltaf að smíða. Þú byggðir kofa, bíla, blómapotta og ýmislegt sem vantaði í sveitina. Bílar áttu samt hug þinn allan og ég man svo vel þegar við vorum að keyra norður í sveitina okkar þá fannst þér svo gaman að telja alla bílana sem þú sást á leiðinni. Eftir að þú fluttir á Hellu 10 ára gamall varstu alltaf svo duglegur að koma með strætó að heimsækja mig og afa í Reykjavík. Síðan fékkstu bílprófið og þá hélstu áfram að koma í heimsókn til okkar.

Elsku Oddur minn, góðmennsku þína sýndir þú svo vel þegar afi Magnús varð veikur. Þá keyrðir þú reglulega frá Hellu til Reykjavíkur að heimsækja hann og gátuð þið spjallað um bíla og smíðar. Það er svo stutt síðan þú hringdir í mig og sagðir: Nú ætla ég að koma í bæinn, amma mín, og þá skulum við fara út að borða saman. Þetta yljaði mér svo mikið og ég hlakkaði svo til. En það bjóst enginn við þessum sorgarfréttum, elsku Oddur minn, og mikið sem ég sakna þín. En það voru margar bænir sem ég kenndi þér og eftir einni af þeim lifðir þú:

Berðu ávallt höfuð hátt

hvað sem að þér gengur.

Verndaðu blómin veik og smá

vertu góður drengur.

Elsku Oddur minn, góði drengur, nú kveð ég þig með söknuði en líka með þakklæti fyrir allar góðu stundirnar og gleðina sem þú færðir mér og að hafa átt þig.

Hallfríður Kristín Skúladóttir (amma Haddý).

HINSTA KVEÐJA
Kominn ertu Oddur minn
annarra til heima,
við munum alltaf manndóm þinn
í minningunni geyma.
Þráfaldlega þetta og hitt
þú hafðir við að „díla“
áhugamálið eitt var þitt
að endurnýja bíla,
byrjaðir svo bara á
bæði að rífa og tæta,
að lokum vildir laga þá
líka og endurbæta.
Nú Guð faðir afléttir allri pínu
og umvefur þig í ríki sínu.
(Bj.Þ.)
Afi og amma Hrafntóftum 2,
Björgúlfur og Pálína.