Grúsk Kristín og Jón gramsa hér í peningakassanum góða þar sem leynist m.a gamalt vegabréf frá Kristínu þar sem hún er með permanent í hárinu. Á borðinu er líka mappa með gömlum sendibréfum frá fjölskyldumeðlimum.
Grúsk Kristín og Jón gramsa hér í peningakassanum góða þar sem leynist m.a gamalt vegabréf frá Kristínu þar sem hún er með permanent í hárinu. Á borðinu er líka mappa með gömlum sendibréfum frá fjölskyldumeðlimum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nýtni getur komið sér vel, maður veit jú aldrei hvenær eitthvað gæti komið að góðum notum. Jón og Kristín sannreyndu það um síðustu jól í Disneylandi. Jón hendir helst engu og lumar því á ýmsu, m.a gömlum sendibréfum og löngu sofnuðum bankabókum.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Ég átti í fórum mínum þrjá ónotaða miða, frá því við hjónin fórum í Disneyland með börnin okkar fyrir 27 árum, eða árið 1991. Mér fannst alveg tilvalið að taka þá með og freista þess að nota þá,“ segir Jón Hálfdanarson sem er ekki mikið fyrir að henda nokkrum sköpuðum hlut, en hann tók þessa næstum þrítugu aðgöngumiða með sér til Bandaríkjanna um síðustu jól þegar hann og kona hans, Kristín Steinsdóttir, heimsóttu son sinn Stein og fjölskyldu hans sem þar eru búsett.

„Við lukum ferðinni með því að fara til Orlando og skelltum okkur í Disneyland. Ég rétti stúlkunni í afgreiðslunni hjá fyrri garðinum sem við heimsóttum, Epcot Center, tvo af þessum gömlu miðum og sagði henni hversu gaman hefði verið að koma með börnin mín þangað fyrir 27 árum. Hún brosti og horfði lengi á miðana en hringdi svo til að komast að því hvort þeir væru enn í gildi. Sem reyndist vera. Hún bað mig afsökunar á að þurfa að halda þessum sögulegu miðum eftir, en henni varð hughægara þegar ég tók mynd af þeim til minningar,“ segir Jón og bætir við að þegar þau hjónin hafi á öðrum degi farið í Disneygarðinn Animal Kingdom, með þriðja miðann, hafi önnur stúlka tekið á móti þeim og sú hafi velt miðanum fram og til baka en sagt þeim svo að gjöra svo vel. „Þetta var alveg vandræðalaust, og við spöruðum okkur 300 dollara með þessum gömlu miðum. Og ekki var einu sinni búið að reisa Animal Kingdom þegar við keyptum þá.“

Svona kassi er guðsgjöf

Þegar Jón er spurður að því hvar hann hafi gengið að miðunum vísum eftir allan þennan tíma, segist hann hafa geymt þá í litlum peningakassa.

„Þar geymi ég vegabréfin okkar, gömul og ný, og ýmislegt annað dýrmæti, gömul fimmtíu ára ökuskírteini, erlenda peningaseðla og fleira.“ Þegar Jón dregur fram kassann kemur Kristín kona hans askvaðandi og segir að því skuli haldið til haga að hún hafi keypt þennan forláta peningakassa þegar þau hjónin fluttu heim til Íslands frá Þýskalandi árið 1978.

„Svona kassi er guðsgjöf, hér leynist ýmislegt,“ segir Kristín og fer að gramsa í innihaldinu og rekst þar meðal annars á eldgamlar bankabækur „sem eru löngu sofnaðar“, eins og hún orðar það sjálf.

Við skeindum okkur á dagblöðum í þá daga

Kristín segir að þau hjónin séu bæði fastheldin og að börnin þeirra stríði þeim og segi að ef eitthvað fari upp á vegg hjá þeim þá sé það þar fyrir lífstíð. „En ég er ekki eins slæm og Jón, hann vill alls ekki henda neinu,“ segir Kristín og hlær og Jón gengst fúslega við því. „Ég hef stundum borið kassa aftur inn sem hefur átt að fara með á öskuhauga, af því mér finnst margt geta mögulega komið að notum seinna, sem hefur oft verið raunin. Og það kemur margt dýrmætið fram þegar gruflað er í geymslum, þó dóttir mín kalli það sumt frá forsögulegum tíma,“ segir Jón sem var alinn upp í nýtni, rétt eins og flestir af hans kynslóð, þó ekki hafi verið fátækt á heimilinu. „Við skeindum okkur til dæmis á dagblöðum á mínu bernskuheimili, sem er góð endurnýting á pappír.“

Kristín grípur þetta á lofti og segist líka hafa verið alin upp í mikilli nýtni. „Allt var heimasaumað og fötum var vent. Svo maður hendir ekki svo glatt frá sér. Pabbi keypti Þjóðviljann og safnaði honum, og ekki mátti snerta hann. En ef Mogginn kom inn á heimilið fyrir einhverja slysni, fór hann að sjálfsögðu beint á klósettið,“ segir Kristín og hlær.

Jón segir Þjóðviljann aftur á móti hafa verið sjaldgæfan á hans heimili, enda er hann alinn upp á „bláu heimili“. „En samt voru grundvallarlífsskoðanir föður míns og tengdaföður mjög svipaðar, þó þeir væru á öndverðum meiði í pólitíkinni.“

Skiptumst á hasarblöðum í anddyrinu í þrjúbíói

Jón segir að bílskúrinn þeirra sé vissulega fullur af dóti sem hann geymi. „Meðal annars úr dánarbúi föður míns sem var kaupmaður í Kjöti og fiski á Þórsgötu. Þessi uppsöfnun getur verið erfið fyrir þá sem taka við og þurfa að fara í gegnum þetta. En það leynist heilmikill fróðleikur í ólíklegustu hlutum, til dæmis geymir Jakob bróðir minn bókhald verslunar pabba, sem er mikil heimild um þann tíma. Þar sést að fólk keypti upp á krít hjá kaupmanninum. En þegar kreppan reið yfir gekk ekki vel að innheimta,“ segir Jón og bætir við að faðir hans hafi staðið að stofnun Tónlistarfélags Reykjavíkur, einn af postulunum tólf eins og þeir voru kallaðir. Þeir settu upp og sýndu óperettur.

„Við áttum öll gömlu prógrömin og upplýsingar um atburðina. Það fór allt á Tónminjasetrið. Ég safnaði líka hasarblöðum sem strákur, við krakkarnir stóðum í anddyrinu í þrjú bíó og skiptumst á hasarblöðum. Þar var verðmætið misjafnt, Dell blöðin amerísku þóttu verðmætari en Andrésblöð á dönsku. Samt fannst mér Andrés miklu skemmtilegri. Ég er hræddur um að þessi blöð mín séu glötuð.“

Bréf geyma sögu fólks

Kristín og Jón eiga bæði í fórum sínum heilu möppurnar af gömlum handskrifuðum sendibréfum frá ættingjum, enda finnst Jóni mestu verðmætin vera í þeim.

„Þau geyma sögu fólks og líðan. Ég geymi til dæmis sagnaþætti sem Jóhann Skaptason sýslumaður á Húsavík skrifaði niður á efri árum um ættingja sína, en afi hans var Jóhann Bessason bóndi á Skarði í Fnjóskadal, sterkasti maður á Íslandi á sínum tíma, og sá sem var líkastur Agli Skallagrímssyni. Jóhann var giftur móðursystur minni, Sigríði Víðis Jónsdóttur, en hún flutti til okkar þegar Jóhann dó og hún varð amman í húsinu,“ segir Jón sem fer á flug þegar talið berst að forfeðrunum.

„Jón Víðis var í læknisfræði þegar spænska veikin herjaði á fólk hér árið 1918, fyrir sléttum hundrað árum, og hann gekk til sjúklinga í Reykjavík. Það hefur ekki verið létt verk, því eftir það varð hann andsnúinn læknisfræðinni og sneri sér að arkitektúr og verkfræði.“

Kristín dregur fram möppu með bréfum sem faðir hennar átti í sínum fórum.

„Þetta eru bréf sem bárust inn á heimili pabba og mömmu á löngum tíma, meðal annars bréf frá okkur börnunum. Elsta bréfið er frá 1926, það er bréf sem pabbi fékk frá ömmu sinni í Suðursveit.“

Óttaðist glæpamenn með byssur í vösunum

Þegar grúskað er í gömlu dóti rifjast ýmislegt upp, og þar sem Jón og Kristín fletta gömlum vegabréfum er þar stimpill frá fyrstu ferð þeirra til Bandaríkjanna, sjálf brúðkaupsferðin árið 1973.

„Við giftum okkur um jólin 1972 og fórum til New York á nýárinu. Þar heimsóttum við vin minn, Pál Einarsson jarðeðlisfræðing og Önnu konu hans, en þau voru samtíða mér í námi í Þýskalandi. Við nýgiftu hjónin fengum að gista á gólfinu hjá þeim,“ segir Jón og Kristín bætir við að 23 stiga frost hafi þá verið í borginni.

„Jóel sonur þeirra svaf í vagni sínum úti á svölunum í þessum kulda! Ég var sjálf komin fimm mánuði á leið með frumburð okkar og ég var svo hrædd, ég var sannfærð um að allir væru glæpamenn með byssur í vösunum. New York var mjög framandi borg fyrir mig, en auk þess var ég alin upp í litlu dálæti á Ameríku, sem hefur eflaust haft áhrif á þennan ótta minn. Bandarískar kvikmyndir sem ég hafði séð höfðu eflaust líka áhrif á þessa hræðslu mína.“

Hífaðir farþegar og gluggarnir voru kolsvartir af skít

Þau segja að á þeirra ungdómsárum hafi verið draumur ungs fólks að ferðast með Greyhound, langferðarútum í Bandaríkjunum sem hægt er að fara með frá borg til borgar. Og um síðast liðin jól varð sá draumur loks að veruleika þegar þau fóru með einni slíkri rútu frá Pittsburgh til Columbus í Ohio.

„Þetta þótti ævintýralegt á sínum tíma, en við komumst að því að núna eru þessar rútur mest notaðar af þeim sem ekki hafa efni á einkabíl eða að fljúga. Fagmennskan var ekki í fyrirrúmi, við biðum í fimm klukkutíma eftir að rútan færi af stað og það virtist vanta bílstjóra. En þetta var skemmtilegt ferðalag, sumir voru hífaðir, gluggar rútunnar voru kolsvartir af skít og sá ekki út um þá og klósettið aftur í var bilað. Okkur fannst gaman að spjalla við fólkið á biðstöðinni, þar voru kynlegir kvistir,“ segir Kristín sem telur þau þó ekki munu ferðast aftur með draumarútunum.