Jón Steinar fæddist 31. desember 1947. Hann lést 9. janúar 2018.

Útför Jóns Steinars fór fram 19. janúar 2018.

Á Flóasvæðinu í Kaliforníu eru háskólarnir Stanford og Berkeley. Þeir eru þekktir fyrir vísinda- og frumkvöðlastarf. Þekktast af þessu í seinni tíð er þróun tölvubyltingarinnar í Kísildal. Þar er Stanford-háskóli og höfuðstöðvar fyrirtækja á borð við Google og Facebook.

Við stúdentarnir við þessa háskóla á níunda áratugnum höfðum mikil samskipti. Það var enda gott að bera saman bækur um framvindu náms og rannsókna. Skömmu áður en ég kom til Berkeley höfðu Jón Steinar og kona hans Sigrún Guðmundsdóttir flust til Stanford með sonum sínum, Guðmundi og Magnúsi. Sigrún fór í doktorsnám í uppeldisfræði en Jón Steinar varð dósent í olíuverkfræði. Mjög gaman var að koma til þeirra og varð af því vinátta sem entist alla tíð.

Eftir að við lukum námi í Kaliforníu fluttumst við heim og hófum þar störf. Tókum við þá upp þráðinn og hittumst reglulega mér til mikillar uppfræðslu og ánægju. Eftir nokkur ár leituðu Jón Steinar og Sigrún eftir kennslustöðum við háskólann í Þrándheimi. Urðu þau bæði fljótlega prófessorar þar.

Þegar þau komu heim hittumst við jafnan. Sigrún lést aðeins 56 ára árið 2003, en við Jón Steinar héldum áfram reglulegu sambandi um okkar faglegu málefni. Mest var það um þróunina á norðurslóðum, en um það skrifaði ég bókina How the World will Change – with Global Warming árið 2006. Háskólinn í Þrándheimi er framarlega á þessu sviði og ekki síst deild Jóns Steinars í olíuverkfræði. Voru samræður við Jón Steinar um þetta og gögn sem hann sendi mér ómetanleg aðstoð.

Árið 2009 var mér boðið til háskólans til að halda erindi um norðurslóðir. Urðu þá fagnaðarfundir með okkur Jóni Steinari og hinni nýju konu hans, Rigmor Kvarme.

Var mikilli veislu slegið upp í garðinum hjá þeim. Betri leiðsögumann um háskólann en Jón Steinar var tæpast hægt að hugsa sér og reyndar um hverfi bæjarins líka, því hann var í bæjarstjórn Þrándheims í sjö ár og sat þá í skipulagsnefnd.

Við fráfall Jóns Steinars sendi ég Rigmor, sonunum og fjölskyldu mínar innilegustu samúðarkveðjur. Minningin um góðan dreng lifir!

Trausti Valsson.