[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Ívar Benediktsson iben@mbl.

Handbolti

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Eftir tap fyrir Íslandi í fyrsta leik mótsins þá reiknaði ég nú ekki með að leika úrslitaleik,“ sagði Kristján Andrésson, landsliðsþjálfari Svía í handknattleik karla, glaður í bragði þegar Morgunblaðið náði tali af honum í gær. Kristján kom heim til fjölskyldunnar í Svíþjóð á mánudagskvöld með silfurverðlaunapening um hálsinn eftir að hafa stýrt Svíum í úrslitaleik Evrópumótsins í Zagreb á sunnudagskvöld. Hátíðarhöldum verður hinsvegar slegið á frest vegna þess að leikmenn landsliðsins eru komnir til sinna félaga. „Ég ætla að minnsta kosti ekki að vinna neitt næstu vikuna,“ svaraði Kristján spurður hvernig hann ætlaði að halda upp á silfurverðlaunin á EM.

Árangur sænska landsliðsins var framar vonum. Segja má að tapið fyrir Íslandi, 26:24, í upphafsleik liðanna í Split hafi merkt að fall væri fararheill fyrir sænska landsliðið sem Kristján tók við þjálfun á í byrjun vetrar síðla árs 2016. „Þetta var bara mjög skemmtilegt mót fyrir okkur þegar öllu er á botninn hvolft,“ sagði Kristján af sinni alkunnu hógværð og yfirvegun.

Eftir tapið fyrir Íslendingum í fyrstu umferð segir Kristján að góður sigur á Serbum í næstu umferð hafi verið mikilvægur. Hinsvegar hafi sigur á heimamönnum, Króötum, vegið afar þungt fyrir liðsheildina og sjálfstraustið. Ekki bara hafi liðið tekið með sér mikilvæg stig í milliriðil heldur hafi sigurinn orðið til þess að leikmenn endurheimtu sjálfstraustið.

Bensínið var búið

Svíar töpuðu úrslitaleik mótsins fyrir Spáni, 29:23, eftir að hafa verið með yfirhöndina í fyrri hálfleik. „Í síðari hálfleik þá breyttu Spánverjar vörninni hjá sér auk þess sem Arpad Sterpik kom í markið. Því miður þá áttum við ekki svör við varnarleik þeirra, ekkert frekar en Frakkar og Þjóðverjar fyrr í mótinu. En fyrri hálfleikur í úrslitaleiknum var mjög góður af okkar hálfu. Þegar á reyndi í síðari hálfleik þá var bensínið bara búið hjá okkur. Um leið og Spánverjar náðu frumkvæðinu í síðari hálfleik þá vorum við í hlutverki þess að elta og náðum aldrei að brúa bilið. Þar af leiðandi unnu Spánverjar sanngjarnan sigur,“ sagði Kristján sem sjálfur var ekki lengi að jafna sig eftir tapið í úrslitaleiknum. Hann sagði leikmenn sína hafa verið mislengi að sætta sig við tapið.

„Þegar ég kvaddi þá í gær [á mánudaginn] þá voru þeir flest allir orðnir glaðir og sáttir við silfurverðlaunapeninginn um hálsinn sem staðfestingu á þeim góða árangri sem þeir náðu á mótinu. Það var farið að renna upp fyrir þeim hversu langt þeir náðu.“

Sterk liðsheild er aðal liðsins

Kristján segir að liðsheildin sé aðal sænska landsliðsins sem hafi mætt áföllum í keppninni. Flísast hafi úr leikmannahópnum þegar á keppnina hafi liðið. Leikmenn hafi verið kallaðir inn í hópinn með skömmum fyrirvara og aðrir hafi þurft að taka að sér hlutverk sem þeir sinni yfirleitt ekki. Allir leikmenn hafi svarað kallinu og verið tilbúnir að vaða eld og brennistein til þess að ná árangri. Sem dæmi nefnir Kristján að hornamaðurinn Mattias Zachrisson hafi farið á kostum sem örvhent skytta eftir að bæði Johan Jakobsson og Albin Lagergren heltust úr lestinni vegna meiðsla. Sömu sögu sé að segja um Linus Arnesson og frammistöðu hans í undanúrslitaleiknum við Dani. Arnesson var aðeins að leika sinn 10. landsleik en lék eins og þrautreyndur.

Leikskipulagið sem Kristján lagði upp með hélt í flestum leikjunum og þegar illa gekk þá sýndi þjálfarinn og leikmenn hans yfirvegun.

„Okkar skipulag gekk svolítið út á að fá andstæðinginn til þess að leika eins og við vildum. Við reyndum að fá þá til þess að leika okkar leik í stað þess að við færum í þeirra leik. Það er að segja að við réðum ferðinni. Í þeim leikjum sem við töpuðum þá náðum við ekki upp þeim takti í leik okkar sem þurfti eða þá að markvarslan var betri hjá andstæðingunum en hjá okkur.“

Vitum að pressan mun aukast

Kristján segist gera sér grein fyrir að eftir að hafa náð sjötta sæti á HM fyrir ári síðan og silfurverðlaunum á EM að þessu sinni muni væntingarnar til hans og liðsins aukast til muna. Árangurinn hafi farið fram úr væntingum. „Þegar við sækjumst eftir árangri þá verðum við að vera tilbúnir til að taka við honum og um leið búa okkur undir að með betri árangri aukist væntingarnar. Við viljum vera í baráttu um verðlaun á stórmótum. Pressan er ekki aðeins utanaðkomandi heldur einnig frá okkur sjálfum.“

Ekki þarf að fjölyrða um hversu jákvæð áhrif árangurinn hefur á handknattleik í Svíþjóð. Nýverið hafnaði sænska kvennalandsliðið í fjórða sæti á heimsmeistaramótinu í Þýskalandi. Umfjöllun um handknattleik hefur þar af leiðandi verið afar mikil og góð í Svíþjóð síðustu vikurnar.

Bjartsýnn á framtíðina

Spurður hvort hann líti ekki á árangurinn á EM sem stóran sigur fyrir sig persónulega sem þjálfara segist Kristján fyrst og fremst vera ánægður með þær framfarir sem liðið hafi tekið á þeim 16 mánuðum sem liðnir eru síðan hann tók við sem landsliðsþjálfari. „Hópurinn er skemmtilegur. Hann er að mestu skipaður ungum leikmönnum sem þegar hafa náð mjög langt sem handknattleiksmenn. Þar af leiðandi er ástæða til þess að vera bjartsýnn á framtíð sænska landsliðsins.

Hvað mig sjálfan varðar þá er það draumi líkast að komast í þá stöðu að stýra landsliði í úrslitaleik á stórmóti og vinna til verðlauna,“ sagði Kristján Andrésson, landsliðsþjálfari Svía í handknattleik karla og silfurhafi á Evrópumeistaramótinu í handknattleik.