[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Borgarráð Reykjavíkur hefur samþykkt uppbyggingu á þríbýli á óbyggðri lóð í Eikjuvogi 27. Íbúar hverfisins söfnuðu undirskriftum gegn þessum áformum og hyggjast nú kæra samþykkt borgarráðs.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Borgarráð Reykjavíkur hefur samþykkt uppbyggingu á þríbýli á óbyggðri lóð í Eikjuvogi 27. Íbúar hverfisins söfnuðu undirskriftum gegn þessum áformum og hyggjast nú kæra samþykkt borgarráðs.

Guðmundur Atli Pálmason á einbýlishúsið Birkibæ í Eikjuvogi 25.

Hann segir uppbygginguna munu rýra verðgildi húss síns, m.a. með því að valda miklu skuggavarpi. Hann muni láta meta tjónið til fjár.

„Það er mikil breyting að breyta úr einbýlishúsi í tvö hús sem mynda þríbýli,“ segir Guðmundur Atli.

Hann segir alla íbúa í Eikjuvogi og nálægum húsum í Gnoðarvogi hafa skrifað undir mótmælaskjal. Íbúarnir hafi m.a. óttast að uppbyggingin yki á bílastæðaskort.

Byggingarlóðin á sér langa sögu. Þegar Birkibær var byggður 1935-37 fékk húseigandi úthlutað 3,5 hekturum lands við húsið. Það skipulag breyttist og átti húseigandi upp frá því lóðina Eikjuvog 27. Síðar keypti húseigandi í Eikjuvogi 29 lóðina og fékk leyfi fyrir því árið 2008 að reisa tveggja hæða einbýlishús. Vegna hrunsins var hætt við þau áform og seldi lóðarhafi lóðina í fyrra með samþykktri teikningu.

Hefði aldrei verið samþykkt

Guðmundur Atli segist hafa fallist á beiðni þáverandi lóðarhafa um að breyta byggingarreitnum, stækka hann og færa húsið neðar í lóðina.

„Það hefði líkast til annars aldrei verið samþykkt. Við samþykktum þetta út frá þeirri teikningu sem lögð var fram. Það var enda nánast engin skuggamyndun á okkar lóð.“

Þess má geta að árið 2010 gerði Minjastofnun húsakönnun í hverfinu með þeirri umsögn að Eikjuvogur 25 hefði „gildi fyrir sögu hverfisins“. Guðmundur Atli telur nýju húsin munu „kaffæra“ Eikjuvog 25. Átta metra veggur á norðurgafli nýbyggingar verði aðeins sjö metra frá húsinu. Íbúarnir verði þvingaðir á brott.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 18. október og borgarráðs 26. okt. sl. var umrædd breytingatillaga auglýst. Frestur til að skila athugasemdum rann út 19. desember.

Umhverfis- og skipulagsráð borgarinnar féllst á breytinguna 12. janúar óbreytta nema að heimilt verður að greiða í bílastæðasjóð fyrir stæði sem ekki er heimild fyrir á lóð. Slíkt er algengt við þéttingu byggðar.

Fram kemur í lýsingu á breyttu deiliskipulagi að íbúðum sé fjölgað úr einni í þrjár. Þá sé bygging brotin upp í tvo hluta með jafnhalla þaki með mænisstefnu samsíða götu.

„Engin breyting er á byggingarmagni, heildarhæð bygginga, nýtingarhlutfalli eða fjölda bílastæða,“ sagði þar orðrétt. Hins vegar sagði undir liðnum „breyttir skilmálar“ að bílastæðakrafan væri fjögur bílastæði. Tvö í samræmi við gildandi deiliskipulag og tvö til viðbótar vegna fjölgunar íbúða. „Við hönnun húss skal taka tillit til nærliggjandi húsa og byggingin skal fara vel í umhverfi og götumynd.“

Ekkert tillit til athugasemda

Guðmundur Atli segir að þvert á fyrirheit hafi ekkert tillit verið tekið til athugasemda. „Gamla húsið átti að vera rúmlega 6 metra hátt en nýju húsin verða 8,1 metri á hæð, miðað við götu. Húsið sem var teiknað sneri, eins og flest hús í götunni, með mæni út í götu. Þannig að þakið hallaði að okkur og hæsti punktur var tæplega 10 metra frá lóðarmörkum. Nú eiga að koma tvö hús við hliðina á okkur þar sem hæsti punktur verður 8,1 metrar um þrjá metra frá lóðarmörkum. Þar sem um er að ræða tvö hús með stigagangi á milli verður skuggavarpið algjört. Íbúum þykir furðulegt að ekkert tillit sé tekið til sjónarmiða þeirra. Íbúar eru sammála um að borgin hafi gengið of langt og að nýju húsin hafi slæmt fordæmisgildi. Það er reynt að ná miklum fjármunum út úr verkefninu.“