Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Fólk verður að tileinka sér ný vinnubrögð með þrif og aðgengi að garðyrkjustöðvunum verður takmarkað frá því sem verið hefur,“ segir Guðjón Birgisson á Melum í Hrunamannahreppi, einn af umsvifameiri tómataræktendum landsins. Nú í haust greindust tveir plöntusjúkdómar í tómatarækt hérlendis, það er veiran Pepino Mosaic Virus (PepMV) og spóluhnýðissýking. Niðurstöður nákvæmari rannsókna, sem nú liggja fyrir, segja að veirusmitið af völdum PepMV, sem er af afbrigðinu Chile 2, eigi sér í öllum tilvikum sama uppruna og sé útbreitt á garðyrkjustöðvum á Suðurlandi, samkvæmt tilkynningu frá Matvælastofnun.
„Reynslan segir að í 80% tilvika berist smitið inn í gróðurhúsin með fólki. Framtíðin er væntanlega því sú að starfsmenn sem eru við plönturnar séu í hlífðargöllum og öðrum búnaði sem þarf. Svo þurfum við að gera gangskör á stöðvunum með sótthreinsun og annað. Að taka á vandanum er fyrst og síðast vinna og hana förum við bændur í með okkar fólki,“ segir Guðjón.
Ekki er vitað til þess að veiran hafi áður náð fótfestu í garðyrkju hérlendis. Þá er tekið fram í tilkynningu frá Matvælastofnun að sé smitið ekki skaðlegt fólki eða dýrum en spóluhnýðissýking geti aftur á móti borist í kartöflur og því verði að sýna aðgát. Þá er sömuleiðis vakin athygli á því að innfluttir tómatar geti borið með sér smit.
„Það er engin hætta á ferðum, fólk getur áfram borðað íslenska tómata óhrætt,“ segir Guðjón.