Hvernig ætlar meirihluti sem þarf að skerða almenningssamgöngur í núverandi mynd að hafa ráð á borgarlínu?

Almenningssamgöngur eiga eftir að verða áberandi í kosningabaráttunni fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Á mbl.is birtist í gær frétt, sem sýnir hvað samhengið í þeirri umræðu getur verið undarlegt.

Íbúar í Staðahverfi í Grafarvogi eru lítt hrifnir af breytingu sem gerð var á leiðakerfi Strætó um áramót. Bæði sé tímafrekara og flóknara að komast leiðar sinnar en áður. Að auki standist ekki áætlanir því að vagnstjórum sé gefinn svo naumur tími að komast á áfangastaði að ógerningur sé. Þykir þeim verulega dregið úr þjónustu í Grafarvogi og íbúum mismunað.

Íbúarnir gerðu undirskriftalista og sendu borgarfulltrúum og Strætó ásamt bréfi. Aðeins Kjartan Magnússon virti íbúana svars og sagði að Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið breytingunni andvígur. Svarleysi meirihlutans kemur ekki á óvart, en er tæplega til sóma.

Sigríður Lóa Sigurðardóttir, íbúi í Staðahverfi, segir við mbl.is að þessi breyting sé „ekki í anda þess að draga úr notkun einkabílsins. Almenningssamgöngur eiga að vera fyrir alla og sérstaklega þá sem búa í úthverfum og eiga fyrir vikið erfiðara með að ganga eða hjóla á áfangastað.“

Sigríður Lóa veltir einnig fyrir sér fyrir hverja borgarlínan eigi að vera og spyr hvort ekki eigi að vera hægt að komast úr úthverfunum á stöðvar hennar.

Það er líka furðulegt að meirihlutinn í borginni lætur eins og varla þurfi að tala um kostnaðinn við borgarlínu, sem nú er með verðmiðann 70 milljarðar og er þá ótalinn rekstrarkostnaður og fleira. Um leið horfir hún í kostnað, sem í samanburði hlýtur að teljast óverulegur, við að þjónusta íbúa Staðahverfis. Hvernig í ósköpunum ætlar meirihlutinn að borga fyrir og reka borgarlínu ef hann getur ekki fundið peninga til að reka almenningssamgöngur í núverandi mynd með sómasamlegum hætti?