Ari Trausti Guðmundsson
Ari Trausti Guðmundsson
Eftir Ara Trausta Guðmundsson: "Almennt bíður okkar mikilvægt verkefni við að andæfa óskynsamlegri leit og vinnslu jarðefna á norðurslóðum."

Nokkuð hljótt hefur verið um olíuleit á Drekasvæðinu sem og hugsanlega vinnslu þar. Undanfarin ár hafa grunnrannsóknir farið fram sunnan við Jan Mayen og ýmis jarðlög sem geta fangað olíuættuð efni komið í ljós. Miklu nákvæmari og dýrari rannsóknir þarf til að nálgast mat á hvort olía og gas eru þar í vinnanlegu magni og hvort tilraunaboranir teljist fýsilegar eða ekki.

Þessi sýslan hefur lengi verið gagnrýnd, enda ekki rúm fyrir jarðefnin í kolefnisbókhaldi jarðar. Flokkar á Alþingi hafa verið mótfallnir leit og vinnslu en meirihluti verið fyrir slíku. Sennilega hefur gagnrýnendum þó fjölgað jafnt og þétt, bæði þar og í samfélaginu.

Kínverska félagið CNOOC og norska Petoro segja sig nú frá rannsóknarleyfi til 12 ára og öllum frekari skyldum sem því fylgja. Það er gott og jarðlífinu til framdráttar að mínu mati. Orkustofnun telur ekki að íslenska fyrirtækið Eykon geti staðið undir frekari umsvifum á svæðinu vegna smæðar. Viðbrögð fyrirtækisins eru þau að nota andmælarétt sinn og jafnvel leita nýrra samstarfsaðila. Fyrir því sama hafa heyrst raddir á Alþingi, því miður. Áhöld kunna að vera um hvort leitarleyfið og lög heimila innkomu nýrra hluthafa en það kemur brátt í ljós.

Eftir að hafa heyrt sjónarmið á fundum í norðurslóðastarfi og víðar grunar mig að ákvörðun um að hætta leitinni sé af hagrænum toga. Stóru aðilarnir sjá hvorki fram á að heildarfjárfestingin verði vænleg né að niðurstöður leitar gefi tilefni til dýrra og umfangsmikilla þrívíddarskoðana eða tilraunaborana. Norðmenn vilja einbeita sér að vinnslu norðan heimskautsbaugs nær Noregi. Gagnrýna ber skefjalausa sókn þeirra í auðlindirnar á þessum árum firnahraðrar hlýnunar á heimsvísu. Pólitískar breytingar og þrýstingur innanlands gegn olíu- og gasvinnslu hafa líka áhrif á afstöðu norskra stjórnvalda til vinnslu við Jan Mayen.

Hitt er svo deginum ljósara að áköf jarðefnaeldsneytisleit og vinnsla hvarvetna á norðurslóðum er ósamrýmanleg framförum í loftslagsmálum. Svo mikið er vitað um gnægð gass og olíu í jarðlögum annars staðar að viðbótarvinnsla á norðurslóðum myndi sveifla meðalhitastigi jarðar langt yfir ásættanleg mörk (1,5-2,0°C). Ef Ísland á að verða kolefnishlutlaust 2040 þarf algjört aðhald í gas- og kolefnisvinnslu á okkar vegum. Sama gildir, vilji menn fylgja staðreyndinni um að markmiðum Parísarsamkomulagsins verður ekki náð nema 2/3 þekktra jarðefniseldsneytisbirgða verði hlíft.

Leitin á Drekasvæðinu hingað til hefur stórbætt myndina af jarðlögum fyrir norðan Ísland og sögu plötureksins tugi milljóna ára aftur í tímann. Jarðvísindin hafa hagnast!

Almennt bíður okkar mikilvægt verkefni við að andæfa óskynsamlegri leit og vinnslu jarðefna á norðurslóðum – því enn verður hart sótt í auðlindirnar. Nægir að nefna Trumpstjórnina, Statoil, rússnesk fyrirtæki og CNOOC.

Höfundur er þingmaður VG.

Höf.: Ara Trausta Guðmundsson