Arnar Þór Ingólfsson
athi@mbl.is
„Þetta endurspeglar þverrandi samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja, vegna styrkingar krónunnar og mikilla launahækkana á undanförnum árum. Ég hef talað um að ég meti stöðuna þannig að það séu hagræðingar framundan í vetur og ég tel því miður að þetta sé ein birtingarmynd þess,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, um 86 manna hópuppsögn hjá Odda í gær og horfurnar í atvinnulífinu almennt. Fram hefur komið að þessi atriði tvö hafi verið veigamikil í ákvörðun um uppsagnirnar hjá fyrirtækinu.
Hann segist vera nýbúinn að fara hringinn um landið og ræða við atvinnurekendur.
„Sagan er alltaf sú sama, það hefur gengið ágætlega, en hins vegar hafa kostnaðarhækkanir verið miklar á undanförnum þremur árum og það er ekkert rými til frekari kostnaðarhækkana, þar með talið launahækkana. Ef við höldum áfram á sömu braut, þá er augljóst fyrir mér að atvinnurekendur muni þurfa að grípa til uppsagna. Við vonum auðvitað að til þess komi ekki, en við erum komin mjög nærri hengifluginu,“ segir Halldór, sem telur svikalogn ríkja í hagkerfinu hérlendis.
Krónan styður ekki stöðugleika
„Við þekkjum alveg þennan tón,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, um afstöðu framkvæmdastjóra SA. Hann segir heimilin í landinu ekki geta tekið á sig kostnaðinn við of sterkt gengi krónunnar, sem stjórnvöld hefðu þurft að bregðast við.„Við vorum snemma farin að tala um það, árið 2015 og 2016, að hleypa til dæmis lífeyrissjóðunum út til þess að sporna gegn þessari miklu styrkingu krónunnar, en það var ekki gert,“ segir Gylfi. Hann hefur áhyggjur af stöðu innlendra samkeppnisgreina, sem ólíkt ferðaþjónustu hafa ekki notið vaxandi tekna samfara styrkingu krónu. Laun hafa að hans mati ekki hækkað of mikið á undanförnum árum. Launahækkanir hafi verið viðbragð við kreppuástandi, en innstreymi gjaldeyris vegna velgengni ferðaþjónustu með tilheyrandi hækkunum á nafngengi krónunnar sýni það að gjaldmiðillinn geti illa stutt við væntingar okkar um stöðugleika. 16