Bjarney Ágústsdóttir fæddist á Selfossi 12. nóvember 1970. Hún lést 24. janúar 2018 á heimili sínu á Selfossi.

Hún var dóttir hjónanna Ágústs Ólafssonar frá Sæfelli, Eyrarbakka, f. 12. nóvember 1949, d. 2. mars 1976, og Þórunnar Engilbertsdóttur frá Selfossi, f. 30. júlí 1950, d. 17. mars 2007.

Bjarney var flest sín uppvaxtarár á Eyrarbakka, hjá ömmu sinni og alnöfnu og leit alla tíð á Eyrarbakka sem sinn heimabæ. Hún vann bæði í fiski og við verslunarstörf ásamt fleiru sem til féll á Eyrarbakka. Árið 1990 hóf hún sambúð með Hjalta Tómassyni, f. 7. mars 1963, og saman eignuðust þau tvær dætur, Ríkeyju, f. 23. febrúar 1993, og Rakel Steinunni, f. 19. desember 1995. Fyrir átti Bjarney Ágúst, f. 5. febrúar 1988. Hjalti átti fyrir Evu Dögg, f. 2. janúar 1982.

Þau Hjalti bjuggu á Eyrarbakka og Selfossi fyrstu árin en 1994 fluttu þau til Keflavíkur og 1997 fluttu þau svo til Vestmannaeyja og bjuggu þar til 2005 er þau slitu samvistum. Í Vestmannaeyjum var Bjarney virk í félagslífinu og meðal annars tók hún þátt í starfi Leikfélags Vestmannaeyja. Seinna, eftir að hún flutti til Reykjavíkur, starfaði hún töluvert fyrir Samhjálp.

Bjarney átti við erfið veikindi að stríða síðustu árin og lést í kjölfar þeirra.

Útför hennar fer fram frá Eyrarbakkakirkju í dag, 2. febrúar 2018, og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Mig langar að kveðja hana Bjarneyju mína í örfáum orðum.

Hún féll frá, langt fyrir aldur fram, og það er mikill söknuður í fjölskyldunni okkar.

Einhvers staðar segir að þeir deyi ungir sem guðirnir elska og það er hreint ekki ólíklegt að hennar hafi hreinlega verið þörf við hlið almættisins á þessum síðustu og verstu tímum. Það er í það minnsta skortur á góðvild í heiminum en af henni átti Bjarney nóg fyrir alla.

Við Bjarney kynntumst og hófum saman búskap 1990 og eyddum næstu sextán árum saman gegnum súrt og sætt. Því miður entist hjónaband og sambúð okkar ekki lengur og kemur sjálfsagt margt til eins og gengur en alla tíð höfum við verið góðir vinir og höfum alltaf getað leitað hvort til annars þegar illa áraði í lífi okkar.

Okkur þótti mjög vænt hvoru um annað.

Bjarney var lífsglöð og dugleg kona. Þegar við kynntumst vann hún þrjár vinnur, auk þess að ala upp strákinn.

Það varð vendipunktur í lífi okkar 1994. Þá tókum við sameiginlega ákvörðun um að snúa við lífi okkar sem fram að þeim tíma hafði nokkuð einkennst af ákveðnu stjórnleysi og stefnuleysi. Við skiptum algerlega um kúrs, fluttum til Keflavíkur þar sem við hófum nýtt líf og það fór að birta yfir á lífshimni okkar og við tók gott tímabil þar sem okkur gekk flest í haginn. Við fluttum til Vestmannaeyja 1997 og áttum þar okkar bestu ár. Við vorum bæði virk í félagslífinu en það eru ekki allir sem vita að Bjarney var góður leikari og tók þátt í þó nokkrum sýningum LV og kom fram í myndböndum og leikþáttum í sjónvarpi. Hjá leikfélaginu varð hún hálfgerð mamma og átti alltaf til hlýjan faðm fyrir hvern þann sem á þurfti að halda.

Mestallan þann tíma sem við bjuggum í Eyjum var heimilið okkar meira eins og samkomustaður eða félagsheimili frekar en eitthvað annað. Ég gæti best trúað að þeir hafi verið fáir sem áttu um sárt að binda sem ekki settust í einn eða annan tíma við eldhúsborðið í Litlabæ eða á tröppurnar fyrir neðan eldhúsgluggann. Alltaf átti Bjarney á könnunni og alltaf hafði hún tíma til að hlusta þegar fólk bar upp vandamál sín.

Bjarney talaði aldrei illa um nokkurn mann í mín eyru. Þetta get ég sagt með fullri vissu sem staðfestist í mörgum þeim ummælum sem borist hafa á samfélagsmiðlum í kjölfar andláts hennar. Bjarney geislaði frá sér góðvild og hlýju til alls og allra.

Hún var töluverður sjúklingur hin seinni árin en bar veikindi sín með reisn og kvartaði helst aldrei. Hún átti stundum ekki heimangengt en hún var í góðu sambandi við sitt fólk í símanum og að sjálfsögðu á Facebook. Hún var amma alveg fram í fingurgóma eins og barnabörnin hennar fengu að njóta.

Ég kveð Bjarneyju af virðingu og harma mjög missi góðrar vinkonu minnar og móður barnanna minna sem eiga nú um sárt að binda en það hefur verið þeim mikill styrkur að sjá hve margir hafa minnst Bjarneyjar á undanförnum dögum og sent hlýjar kveðjur og huggunarrík orð.

Það er greinilegt að lífsgeisli Bjarneyjar hefur lýst upp tilveru margra.

Hvíldu í friði, mín kæra. Ég mun hugsa um ungana okkar.

Hjalti Tómasson.

Ljósbrá

Hvar sem ég vakna

og hvert sem ég fer

er hún sú eina

sem vakir með mér.

Ljósið mitt bjarta

sem lýsti mér leið,

hún vermir mitt hjarta,

er engill í neyð.

Hvert sem ég fer,

hvar sem er

vakir hún ein með mér.

Í gegnum öll stríð,

í stormi og hríð.

Stúlkan sem enginn sér.

Tíminn var okkar

en leið allt of fljótt.

Og lítið sem lokkar

í niðdimmri nótt.

Því nú er hún farin

og kemur ei meir.

En minningin lifir

og aldrei deyr.

Hvert sem ég fer,

hvar sem er

vakir hún ein með mér.

Í gegnum öll stríð,

í stormi og hríð.

Stúlkan sem enginn sér.

Ef aðeins ég mætti

nú eilitla stund

í köldu svartnætti

fá einn endurfund.

Með mér mun hún vaka.

Hún getur mig sótt.

Því sárin ei þjaka

í eilífri nótt.

Takk fyrir allt, elsku vinkona mín, og góða ferð. Þangað til næst...

Ragna Björk.

Það var hreint eins og tíminn stöðvaðist þegar okkur bárust til eyrna fréttir af ótímabæru andláti bekkjar- og árgangssystur okkar, hennar Bjarneyjar. Hugurinn tók að reika til baka, já aftur um rúmlega 30 ár. Til áranna sem, hjá flestum okkar, einkenndust af áhyggjuleysi, námi, leik og samveru. Bjarney tilheyrði hópnum og setti svip sinn svo sannarlega á hann. Þó svo að Bjarney tilheyrði „sínum“ vinahóp þá var hún eiginlega vinur allra.

Hún fór aldrei í manngreinarálit, spáði aldrei í stétt eða stöðu. Það var einfaldlega ekki hún. Allir voru jafnir í hennar augum, hún var réttsýn og hún bar virðingu fyrir öðrum. Hún var góður vinur. En Bjarney var líka töffari, virtist oft á tíðum eilítið þroskaðri en við flest, hún var hreinskilin og opin persóna. Þetta voru skemmtileg og fjörug ár, þar sem margt misgáfulegt var brallað.

Eins og eðlilegt er í stórum hóp voru samskiptin á milli okkar síðustu árin mismikil. Með hjálp samfélagsmiðlanna verður fjarlægðin svo afstæð og þeir gera okkur kleift að vera í meiri samskiptum okkar í milli, þrátt fyrir fjarlægðir og annir fólks. Að fylgja Bjarneyju, hvort sem var á slíkum miðlum eða augliti til auglitis, var svo sannarlega mannbætandi. Fallegu kveðjurnar í morgunsárið með von um góðan og fallegan dag voru ómissandi og hvetjandi. Að fylgjast með hversu mikið hún naut samvista við fólkið sitt, það sem var kærast henni, var yndislegt. Missir þeirra er mikill. Hún gaf greinilega mikið af sér til þeirra sem það þurftu og var óeigingjörn á tíma sinn og krafta. Hún lét gott af sér leiða og var svo sannarlega með hjarta úr gulli.

Um leið og við þökkum Bjarneyju fyrir samfylgdina, yljum við okkur við ómetanlegar og dýrmætar minningar um góðan félaga sem kenndi okkur hinum svo mikið. Við erum svo sannarlega rík að hafa kynnst henni og verið samferða. Börnum hennar, barnabörnum og öðrum ættingjum vottum við okkar dýpstu samúð.

Takk fyrir allt, elsku Bjarney okkar.

F.h. árgangs 1970 í Gagnfræðaskóla Selfoss,

Anna Margrét Magnúsdóttir.