Afburðaleikur Gary Oldman ber af í aðalhlutverkinu og nánast umbreytir sér algjörlega í Winston S. Churchill.
Afburðaleikur Gary Oldman ber af í aðalhlutverkinu og nánast umbreytir sér algjörlega í Winston S. Churchill.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjóri: Joe Wright. Handrit: Anthony McCarten. Aðalhlutverk: Gary Oldman, Kristin Scott Thomas, Lily James, Stephen Dillane, Ronald Pickup og Ben Mendelsohn. Bretland 2017, 125 mínútur.

Útlitið er dökkt í upphafi maí 1940. Þýskaland nasismans hefur hertekið Tékkóslóvakíu, ráðist inn í Pólland, Danmörku og Noreg og alls staðar haft betur. Í Bretlandi er Neville Chamberlain forsætisráðherra (Ronald Pickup) rúinn trausti og neyðist til þess að segja af sér.

En hver á að taka við af Chamberlain? Fyrsti kostur hans er Halifax lávarður, utanríkisráðherra. Hann nýtur trausts innan Íhaldsflokksins en ekki mikils utan hans. Hinn valmöguleikinn: Winston Churchill. En Churchill er engan veginn óumdeildur leiðtogi, og eftir því sem snaran herðist um breska herinn í Frakklandi verður staða hans erfiðari og erfiðari.

Darkest Hour er ein af fáum myndum sem hefur lagt í að segja frá þessum dimmu dögum í maí 1940, þegar leit út fyrir að stríðsvél nasista væri ósigrandi, og að lýðræðið myndi brátt lúta í lægra haldi fyrir svartnættinu. Það er því ekki að undra að Joe Wright ( Atonement ) skuli hafa ákveðið að gera kvikmynd um þá miklu örlagadaga í sögu Bretlands og heimsbyggðarinnar allrar.

Og Wright tekst alveg bærilega upp að koma til skila hversu vonlaus staða Bandamanna var, sem og þeirri andstöðu sem Churchill mætti innan síns eigin flokks í fyrstu. Kvikmyndatakan er stórfengleg, og mörg atriði þar sem Churchill er sýndur einn, rammaður inn af umhverfi sínu til þess að sýna hversu einangraður hann er. Tónlistin hjálpar einnig til við að skapa hið einkennilega andrúmsloft, þar sem breska þjóðin beið milli vonar og ótta eftir því sem verða vildi.

Leikaravalið er síðan rúsínan í pylsuendanum, en valinn maður er í hverju rúmi. Stephen Dillane ( Game of Thrones ) og Ben Mendelsohn ( Rogue One ) standa sig til dæmis einstaklega vel sem Halifax lávarður og Georg VI. konungur. Kristin Scott Thomas leikur Clementine, konu Churchills, og sýnir vel bæði þann styrk sem hún veitti eiginmanni sínum, sem og það hversu þreytandi það hlýtur að hafa verið að vera gift slíkum karakter.

Á engan er þó hallað þó að Gary Oldman sé sérstaklega tekinn út fyrir sviga í aðalhlutverkinu. Það er varla ofsögum sagt að Churchill er nánast endurborinn á hvíta tjaldinu í meðförum Oldmans. Smámælgin, stamið, þunglyndið, ofdrykkjan, vindlarnir. Oldman kemur þessu öllu listilega vel til skila, og er ekki að undra þó að hann sé talinn líklegur til þess að hljóta Óskarinn fyrir túlkun sína á Churchill.

En þrátt fyrir að öll helstu aðalatriði séu í lagi er eins og Wright nái ekki almennilega að búa til spennu úr efniviðnum. Skiljanlega hefur þurft að sveigja frá sögulegri nákvæmni hér og þar til þess að gera frásögnina dramatískari. Sumar af breytingunum, eins og sú að láta ritara Churchill, Elisabeth Layton (Lily James), hefja störf ári fyrr en hún gerði í raunveruleikanum til þess að fjölga kvenpersónum, ganga vel upp.

Aðrar breytingar fara hins vegar upp og ofan. Á einum stað láta kvikmyndagerðarmennirnir Churchill leita til almennings í landinu, þaðan sem hann sækir sér styrk til þess að halda baráttunni áfram. Sá kafli er ekki bara skáldaður upp frá rótum, heldur virkar hann hálfskringilega í framvindu sögunnar allrar.

Þá festir myndin sig um of í þeirri baráttu sem er á milli Churchills annars vegar og Halifax og Chamberlain hins vegar um það hvort semja eigi um frið eða uppgjöf við Hitler, án þess þó að nokkur framþróun eða framvinda verði á henni. Úrlausnin verður því ekki eins dramatísk og hugsanlega hefði mátt verða.

Að því sögðu er Darkest Hour líklega ómissandi mynd fyrir áhugamenn um sögu heimsstyrjaldarinnar eða hina fjölmörgu aðdáendur Churchills. Hana vantar hins vegar herslumuninn upp á að geta talist sú tímalausa snilld sem vænta hefði mátt í upphafi.

Stefán Gunnar Sveinsson

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson