Eftir því sem andstæður skerpast aukast líkur á að landið liðist í sundur

Lækningarmáttur tímans getur verið orðum aukinn. Balkanskaginn ber því vitni hvað sár geta verið lengi að gróa og hvað lítið þarf til að ýfa þau upp. Hann hefur ítrekað verið uppspretta ófriðar í Evrópu og enn lifir í glæðum átakanna, sem urðu til þess að Júgóslavía leystist upp.

Í Bosníu og Hersegóvínu er loft lævi blandið og í raun er landinu skipt í tvo hálfsjálfstæða hluta, hið svokallaða serbneska lýðveldi og sambandslandið Bosníu og Hersegóvínu auk lítillar spildu, sem er undir stjórn beggja. Það er langt frá því að íbúar landsins líti á sig sem eina þjóð. Í landinu búa Serbar, Króatar og múslimar eða Bosníakar. Bilið á milli þeirra virðist frekar breikka en hitt og þeir, sem vilja hefja sig yfir þessa skiptingu, eiga óhægt um vik. Skólakerfið ýtir enn undir skiptinguna. Börnum katólskra Króata, Serba úr rétttrúnaðarkirkjunni og múslimskra Bosníaka er kennt í aðskildum skólakerfum þar sem ólíkum söguskoðunum er haldið á lofti.

Átökin í Bosníu voru blóðug. Í apríl 1992 var höfuðborgin Sarajevo sett í herkví. Umsátrið stóð í 1.425 daga og létust 13.950 manns í borginni. Þar sem víglínan var eru nú skil á milli serbneska lýðveldisins og sambandslandsins. Blá húsnúmer eru í serbneska hlutanum, en græn hinum megin. Gerendur og fórnarlömb búa hlið við hlið.

Stríðinu í Bosníu lauk 1995 með samkomulaginu, sem kennt er við borgina Dayton í Ohio. Í serbneska hlutanum er hins vegar sjálfstæðisyfirlýsingin, sem gefin var út 9. janúar 1992, þremur mánuðum áður en borgarastyrjöldin braust út, í meiri metum. Meðal þeirra, sem að henni stóðu, var Radovan Karadzic, sem fyrir tveimur árum var dæmdur í 40 ára fangelsi fyrir þjóðarmorð og glæpi gegn mannkyni.

Stjórnarskrárdómstóll landsins hefur bannað að sá dagur sé haldinn hátíðlegur, en í serbneska hlutanum láta menn sér það í léttu rúmi liggja og í Banja Luka, helstu borg hans, var deginum fagnað með pomp og prakt.

Milorad Dodik, forseti serbneska lýðveldisins, sagði í viðtali þann dag að markmiðið væri „mesta mögulega“ sjálfstæði þess. Og hvað þýðir það? „Serbneska þjóðin býr í tveimur ríkjum, í Serbíu og Serbneska lýðveldinu – við viljum verða eitt,“ sagði Dodik, sem á í góðum samskiptum við stjórnvöld í Serbíu og sambandið við Rússa er gott.

Hinir svartsýnustu segja að láti Serbar á þetta reyna geti komið til átaka á ný á Balkanskaga.

Í Serbneska lýðveldinu hafa einnig heyrst kröfur um að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um hernaðarlegt hlutleysi. Það myndi enn skerpa ágreininginn.

Í sambandslandinu Bosníu og Hersegóvínu er takmarkið hins vegar aðild að Atlantshafsbandalaginu og Evrópusambandinu. Þessi markmið fara ekki saman.

Samkvæmt Dayton-samkomulaginu lýtur Bosnía og Hersegóvína forsjá alþjóðasamfélagsins og var skipaður sérlegur fulltrúi til að sjá til þess að hinum borgaralega hluta þess yrði framfylgt. Það hefur mistekist hrapallega.

Undanfarin níu ár hefur austurríski stjórnarerindrekinn Valentin Inzko gegnt þeirri stöðu. Hann segir yfirlýsingar Dodiks staðlausa stafi. Inzko hefur mikil völd og gæti rekið allt frá dómurum til ráðherra, en beitir þeim ekki. Nú segir hann að hann vilji ganga harðar fram gegn aðskilnaðarsinnum og rifjar upp framgöngu forvera síns, Paddys Ashdowns. Þá hafi hins vegar verið 60 þúsund hermenn í landinu á vegum alþjóðasamfélagsins, nú séu þeir 600.

Inzko hefur áhyggjur af því hvað Bosnía er neðarlega á forgangslistanum í vestrinu. Vladimír Pútín Rússlandsforseti hafi alltaf tíma til að taka á móti Dodik, en hann fái ekki tíu mínútur á mánuði hjá hinum vestrænu ríkjum.

Ekki er eingöngu hægt að rekja ástandið í Bosníu og Hersegóvínu til Serba. Sagt er að á Balkanskaga sé alltaf allt öðrum að kenna. Í skólum, kirkjum og moskum setur hver fram sína útgáfu af sögunni, af því hverjum sé að kenna hvernig komið er.

Króatar eru farnir að gera kröfu um eigið lýðveldi innan sambandsríkisins og hótanir um að sniðganga stofnanir, sem þeir deila með múslimum. Moskur spretta upp í krafti peninga, sem streyma inn frá Sádi-Arabíu og Kúveit. Þar við bætist flótti ungs fólks frá landinu. Atvinnuleysi meðal ungs fólks er yfir 50%.

Í haust verður kosið í Bosníu og Hersegóvínu. Búast má við að enn færist harka í leikinn, enda mikið í húfi.