Þorvaldur Snæbjörnsson fæddist 30. ágúst 1930. Hann lést 11. janúar 2018.

Útför Þorvaldar fór fram 22. janúar 2018.

Kær öðlingur og fjölskylduvinur er fallinn frá. Ég kynntist Þorvaldi Snæbjörnssyni, eða Lilla eins og hann var gjarna kallaður, á æskuárum mínum á Akureyri, en hann var einn besti vinur pabba míns.

Þorvaldur var ljúfmenni með sérstaklega góða og þægilega nærveru, dugnaðarforkur og fylginn sér, frábær veiðifélagi og manna skemmtilegastur þegar hann fékk sér í tána.

Hann byggði sér og fjölskyldu sinni glæsilegt heimili í Kotárgerði 18 og garðurinn hans með klettabakkanum sem hann ræktaði af alúð var rómaður fyrir fegurð.

Og kartöflurnar sem hann ræktaði, ja þvílík eðal-jarðepli voru vandfundin.

Til eru margar skemmtilegar sögur af Þorvaldi, ekki síst af uppákomum í veiðitúrum með pabba þar sem við Snæbjörn (Brói) sonur Lilla og æskufélagi minn vorum með í för. Lilli var lunkinn veiðimaður eins og pabbi og manna fisknastur.

Ef fiskur gaf sig þá var Lilli að fá hann. Manni yljar um hjartarætur þegar maður minnist skemmtilegra sumarkvölda á árbakkanum eftir fengsælan veiðidag.

Þá var stundum tekinn tappi úr flösku og sunginn óður til íslenskrar náttúru eða fósturlandsins freyju.

Fyrir þessar stundir verð ég eilíflega þakklátur sem og aðra samveru með Þorvaldi.

Ég votta Guðrúnu, eftirlifandi eiginkonu hans, og börnum þeirra, Möggu, Bróa, Stjána og Lella, mína dýpstu samúð. Hvíldu í friði, Lilli minn.

Ívar Aðalsteinsson.