Áhugasamur Trausti Harðarson í Laugardalnum með áhorfendastúkuna að baki, en hann er áfram um að hún fái hlutverk við hæfi og sé meira nýtt.
Áhugasamur Trausti Harðarson í Laugardalnum með áhorfendastúkuna að baki, en hann er áfram um að hún fái hlutverk við hæfi og sé meira nýtt. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Laugardalslaugina þarf að taka rækilega í gegn svo hún fái nýja og betri ásýnd og sína fyrri stöðu sem fyrirmynd annarra sundlauga á Íslandi,“ segir Trausti Harðarson, fulltrúi Framsóknarflokksins í íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur. Á fundi ÍTR á dögunum lagði hann fram tillögu um að efnt yrði til hugmyndasamkeppni um sundlaugarsvæðið í Laugardal – þar sem bæði arkitektar og almenningur gætu komið með hugmyndir. Yrði meðal annars horft til þess að finna áhorfendastúku laugarinnar verðugt hlutverk. Einnig er Trausti áfram um að koma upp dýfingaraðstöðu.

Ekki tímabært

Við afgreiðslu málsins sagði meirihluti ÍTR að hugmyndasamkeppni væri ekki tímabær og var málinu vísað til umfjöllunar umhverfis- og skipulagsráðs og skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg. Kom fram að á fyrri stigum hefðu verið gerðar úttektir á viðhaldi á laugarkeri og stúku Laugardalslaugar og nauðsyn á endurbótum þessara mannvirkja.

Einnig hefur verið skipaður starfshópur um Laugardal vegna menningartengdrar þjónustu í Laugardal þar sem sundlaugin væri í brennidepli. Þá séu fyrirhugaðar endurbætur á búningsklefahúsum, laugavarðaturni og fleiru. Þá sé ekki hlutverk ÍTR að efna til samkeppna um hönnun mannvirkja. Önnur ráð í borgarkerfinu annist slíkt.

Pottur undir þekjunni

Trausti Harðarson hefur vakið athygli á fleiru viðvíkjandi Laugardalslaug á vettvangi ÍTR. Þannig var upplýst á fundi ráðsins á dögunum, í kjölfar fyrirspurnar Trausta að svonefndur Steinapottur í lauginni ætti sér bróður. Umræddur pottur væri hægra megin við glerbyggðan útgang sem farið væri um þegar gengið væri að sundlaug frá búningsklefum sem byggðir voru árið 1986. Vinstra megin við útganginn er hins vegar undir steyptri þekju tilbúinn botn og veggir að steinapottum, en tröppur og annað var aldrei lokið við. Framkvæmdinni var frestað vegna áhyggna af því að veggir á laugarkeri Laugardalslaugar væru að gefa sig.

Embættismenn hafa upplýst ÍTR um að hægt sé að grafa heita pottinn upp og klára á sama tíma og laugarkerið yrði styrkt og aðrar framkvæmdir á svæðinu færu fram. Steinapottarnir í Laugardalslaug yrðu þá tveir, en að bæta öðrum við kostar 220 milljónir króna.