Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis ákvað í gær að gera hlé á rannsókn nefndarinnar á embættisfærslu Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra við skipun dómara við Landsrétt.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis ákvað í gær að gera hlé á rannsókn nefndarinnar á embættisfærslu Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra við skipun dómara við Landsrétt. Að sögn Helgu Völu Helgadóttur, formanns nefndarinnar og þingmanns Samfylkingarinnar, er hlé gert á meðan málið er til skoðunar hjá umboðsmanni Alþingis.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd mun síðan meta stöðuna þegar niðurstaða umboðsmanns liggur fyrir og ákveða hvert framhald málsins hjá nefndinni verður.

Ekki hefur komið fram að umboðsmaður Alþingis hefji frumkvæðisrannsókn á þessu máli. Hann óskaði eftir upplýsingum frá ráðherra til að undirbúa sig fyrir fund sem hann var boðaður til hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í janúar. Þá vissi hann ekki hvert yrði viðfangsefni fundarins eða til hvers væri ætlast af honum. Tryggvi Gunnarsson umboðsmaður sagði þá í samtali við mbl.is að sú starfsregla gilti að umboðsmaður fjallaði ekki um sömu atriði og Alþingi sjálft væri að athuga. Því myndi hann ekki huga frekar að málinu nema þá eftir að nefndin hefði afmarkað verkefnið.