Kjartan Magnússon
Kjartan Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti samhljóða á fundi sínum í gær að vísa tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að hefja undirbúning að gerð neðanjarðarstokks á Miklubraut til borgarráðs.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti samhljóða á fundi sínum í gær að vísa tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að hefja undirbúning að gerð neðanjarðarstokks á Miklubraut til borgarráðs. Borgarstjóra er þar falið að leita þegar í stað eftir samstarfi við ríkið og verði meðal annars skoðað hvort hagkvæmt sé að vinna verkið í einkaframkvæmd.

„Mér finnst þessi tillöguflutningur til marks um það að þeir vilji vera með í þessu máli. Það er jákvætt að eindrægni og samstaða sé um það. Stokkurinn er í aðalskipulaginu og það hefur verið unnið að útfærslu hans, meðal annars í samráði við íbúa í Hlíðum, í tengslum við gerð hverfaskipulags. Að það sé samstaða í borginni ætti að styrkja málið og auðvelda næstu skref,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem flutti tillöguna, segir að sjálfstæðismenn fagni því að borgarstjóri hafi tekið vel í tillöguna og samþykkt að vísa henni til borgarráðs, í trausti þess að meirihlutanum sé alvara að vinna í málinu.

Meirihlutinn að kúvenda?

Kjartan segir að borgarstjóri og flokkarnir í meirihlutanum hafi tafið þetta mál í mörg ár. Dregið hafi verið úr vægi stokks við síðustu breytingar á aðalskipulagi og á árinu 2012 hafi núverandi borgarstjóri staðið fyrir því að gerður var sérstakur samningur Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu við ríkið um að fresta ýmsum stórframkvæmdum í þágu samgöngumála í Reykjavík um óákveðinn tíma. Þar hafi umrædd stokkalausn á Miklubraut verið látin fjúka.

„Svo virðist sem borgarfulltrúar meirihlutans ætli nú að kúvenda í afstöðu sinni til slíkra samgöngubóta á Miklubraut og er það ánægjulegt í sjálfu sér. Vonandi er að hugur fylgi máli en að ekki sé um að ræða einhvers konar bragð í aðdraganda kosninga,“ segir Kjartan.

Dagur segir að það sé misskilningur að framkvæmdum við Miklubrautarstokk hafi verið frestað með samningunum árið 2012. Framkvæmdir sem getið er um á minnisblaði með samningunum hafi aldrei verið á samgönguáætlun. „Núna þegar útfærslan er komin, þá er grundvöllur kominn til að sækja þetta mál í viðræðum við ríkið og koma því til framkvæmda.“

Hann neitar því að áform um Miklubrautarstokk séu til marks um stefnubreytingu Samfylkingarinnar í uppbyggingu umferðarmannvirkja. Mislæg gatnamót flytji bara vandann á milli gatnamóta. Stokklausn veiti hins vegar gegnumstreymisumferð undir og gefi kost á rólegri umferð á yfirborði.