Lára Óskarsdóttir
Lára Óskarsdóttir
Eftir Láru Óskarsdóttur: "Nú þegar sífellt þrengir að umferð er sem hugarfar Brekkukotsbónda ráði ríkjum."

Á hverjum virkum degi ekur fjölskylda mín af stað, allir hver á sínum bílnum, hver í sína áttina, á mismunandi tímum. Sá yngsti tekur strætó ef ég keyri hann ekki, sjálf gæti ég auðveldlega hjólað í vinnuna en hef kosið að gera það ekki. Ástæðan er að mér finnst ég ekki komast á milli staða án þess að dragast inn í akandi umferð sem mér finnst ekki eiga samleið með hjólandi eða gangandi. Við sem búum á þéttbyggðasta svæði landsins þurfum á því að halda að sett sé fram heildstæð stefna varðandi umferðina. Í upphafi voru það gangandi, ríðandi og síðar akandi sem mótuðu gatnakerfið eins og við þekkjum það í dag en kerfið hefur þróast frá götuslóðum liðinna kynslóða til malbikaðra stræta. Það má þakka þeim sem voru ekki eins heimasætnir og persónan Björn í Brekkukoti að götuslóðum fjölgaði og kerfið varð að æ stærra samgöngukerfi. Í dag dugar þessi leið til framþróunar skammt og nú er svo komið að kerfið er sprungið. Akandi eru óánægðir, hjólandi eru óánægðir og sömuleiðis þeir sem treysta á gangstéttir. Hjólandi skáskjóta sér og taka áhættu í nánast hverri ferð. Daglega sitja ökumenn fastir í umferðarteppu, sumir grípa til þess ráðs að pota sér áfram á stærri gatnamótum vitandi að röðin fyrir framan situr föst. Óæskilegir fylgifiskar þess að sitja kyrr í bílaumferð eru m.a. stress og vanlíðan. Slíkt ástand getur haft slæmar afleiðingar í för með sér. Ökumenn leita inn í íbúðahverfi til að forðast helstu flöskuhálsa en það skapar hættu fyrir börn og aðra gangandi eða hjólandi. Sú umferðarómenning sem viðgengst innan borgarinnar í dag er afleiðing bútaskipulags sem virðist endurspegla pólitískan rétttrúnað þeirra sem þar ráða för. Að þróa umferð samhliða byggð er ábyrgðarhlutur sem ber að vanda til. Þéttbýli krefst þess að gert sé ráð fyrir svæði fyrir flæði svo hægt sé að þróa umferð í átt að öryggi.

Nú þegar sífellt þrengir að umferð er sem hugarfar Brekkukotsbónda ráði ríkjum. Hvernig sem fólk ætlar sér á milli staða þarf heildstætt kerfi sem veitir öllum sem mest öryggi. Til að svo megi verða þarf að draga að borðinu sérfræðinga sem horfa til framtíðar og sjá fyrir sér hvernig brúa megi bilið á milli nútíðar og framtíðar. Í komandi sveitarstjórnarkosningum verða samgöngumál eitt af stóru málunum. Nú reynir á að borgarbúar leggi vel við hlustir og kjósi þá til forystu er horfa til framtíðar varðandi málaflokkinn.

Höfundur er varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. lara@oska.is

Höf.: Láru Óskarsdóttur