Ólöf Ragnarsdóttir
olofr@mbl.is
Til stóð að flytja Sunnu Elviru Þorkelsdóttur, sem lamaðist eftir fall í Malaga á Spáni fyrir rúmum tveimur vikum, á bæklunarspítala í Toledo í gær en ekki varð af því sökum þess að spítalinn segist ekki hafa pláss fyrir hana. Þetta segir Jón Kristinn Snæhólm, talsmaður Sunnu, í samtali við Morgunblaðið. Einum og hálfum tíma áður en flytja átti Sunnu var þeim tjáð að ekki væri hægt að taka við henni í Toledo. „Það var verið að búa hana undir flutning og bíllinn klár og allur pakkinn og þá segjast þeir ekki hafa pláss fyrir hana,“ segir Jón Kristinn. Hann segir alla steinhissa á þessum fréttum og erfitt sé að skilja að ekkert sjúkrahús á Spáni geti tekið við lamaðri konu. Þá segir hann batahorfur Sunnu undir því komnar að hún fái viðunandi meðferð. Jón Kristinn segist sjálfur hafa verið viðstaddur þegar læknar á sjúkrahúsinu í Malaga lýstu því yfir að ekki væri mögulegt að veita Sunnu viðeigandi meðferð þar og báðu um að fundið yrði pláss fyrir hana þar sem hún fengi þá meðhöndlun sem hún þarfnast.