Íbygginn Svanur Kristinsson í lopapeysunni og hér sést hann gægjast yfir gleraugun góðu, sem hann hefur verið með á nefinu í þrjá áratugi.
Íbygginn Svanur Kristinsson í lopapeysunni og hér sést hann gægjast yfir gleraugun góðu, sem hann hefur verið með á nefinu í þrjá áratugi. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Sólgleraugun eru alveg ómissandi og smíðin er vönduð,“ segir Svanur Kristinsson, lögregluþjónn á Selfossi. Morgunblaðið hitti hann á förnum vegi um helgina þar sem hann var með sín Ray Ban-sólgleraugu sem hann hefur gengið með síðan 1988.

„Sólgleraugun eru alveg ómissandi og smíðin er vönduð,“ segir Svanur Kristinsson, lögregluþjónn á Selfossi. Morgunblaðið hitti hann á förnum vegi um helgina þar sem hann var með sín Ray Ban-sólgleraugu sem hann hefur gengið með síðan 1988. Sömu gleraugun á nefinu í þrjátíu ár er góð ending!

„Þáverandi mágur minn, Þórir Hergeirsson, sem gert hefur garðinn frægan sem handboltaþjálfari í Noregi, var að koma heim til Íslands frá Osló sem oftar og ég bað hann um að velja fyrir mig góð sólgleraugu sem hann og gerði. Þórir valdi vel; keypti þau hjá flugfreyjunum í þotu Icelandair og þau voru rándýr,“ segir Svanur. Hann bætir við að gleraugun hafi lent í ýmsu hnjaski um dagana en aldrei þó brotnað. Ýmsir þeir sem Svanur hefur haft afskipti af um dagana eru reikulir í ráði og hafa sumir viljað ná taki á sólgleraugunum. Alltaf hafa þau þó sloppið.

Mikið öryggisatriði

Það var árið 1988, árið sem Svanur eignaðist sólgleraugun, sem hann byrjaði í lögreglunni á Selfossi og var í liðinu þar til fram á síðasta haust. Færði sig þá um set innan sama embættis, það er Lögreglunnar á Suðurlandi, og stendur nú vaktina á Kirkjubæjarklaustri. „Þetta er gjörólíkt umhverfi að starfa í; hér fyrir austan eru þetta mikið verkefni sem tengjast ferðamönnum, til dæmis fólki á bílaleigubílum,“ segir Svanur, sem var á leiðinni til starfa austur á Kirkjubæjarklaustur þegar rætt var við hann í gær. Á leiðinni var léttskýjað og snjór yfir öllu – og endurkast frá hvítri fönninni mikið. „Við svona aðstæður, þegar birtan er sterk, er nauðsynlegt að vera með sólgleraugu og mikið öryggisatriði,“ segir Svanur Kristinsson. sbs@mbl.is