Þorvaldur Steingrímsson fæddist á Akureyri 7.2. 1918. Foreldrar hans voru Steingrímur Matthíasson, læknir á Akureyri, og k.h., Kristín Thoroddsen húsfreyja, systir Emils Thoroddsen tónskálds.

Þorvaldur Steingrímsson fæddist á Akureyri 7.2. 1918. Foreldrar hans voru Steingrímur Matthíasson, læknir á Akureyri, og k.h., Kristín Thoroddsen húsfreyja, systir Emils Thoroddsen tónskálds. Steingrímur var sonur Matthíasar Jochumssonar skálds en Kristín var dóttir Þórðar Thoroddsen, alþingismanns og læknis, bróður Skúla Thoroddsen alþingismanns, afa Skúla Halldórssonar tónskálds. Móðir Kristínar var Anna L. Thoroddsen, systir Kristjönu Guðjohnsen, móður Jóns Halldórssonar, söngstjóra Fóstbræðra, en systir þeirra systra var Marta, amma Jórunnar Viðar tónskálds.

Eiginkona Þorvaldar var Ingibjörg Halldórsdóttir sem lést 1966, og eru börn þeirra Sigríður leikkona; Kristín hárgreiðslukona, og Halldór, forstjóri á Flórída. Seinni kona Þorvaldar: Jóhanna H. Cortes.

Þorvaldur var við nám í Tónlistarskólanum í Reykjavík 1934-37, lærði m.a. fiðluleik hjá Þórarni Guðmundssyni, lauk fullnaðarprófi í fiðluleik 1937 og var við framhaldsnám í The Royal Academy of Music í London 1946.

Þorvaldur var fiðluleikari Útvarpshljómsveitarinnar frá 1944 og forfiðlari þar frá 1947, var fiðluleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands frá stofnun, aðstoðarkonsertmeistari frá 1966 og konsertmeistari við Þjóðleikhúsið 1966-80. Hann starfaði hjá Hollywood Bowl Orchestra í Kaliforníu 1961-62, var fyrsti fiðluleikari hjá Sinfóníuhljómsveit Dallas-borgar 1962-64 og aðstoðarkonsertmeistari hjá Sinfóníuhljómsveit Oklahoma-borgar 1969-71. Hann kenndi við Tónlistarskólann í Reykjavík 1943-46 og var skólastjóri Tónlistarskólans í Hafnafirði 1980-88. Þorvaldur starfaði lengi í Frímúrareglunni, var formaður FÍH 1953-55, formaður Lúðrasveitar Reykjavíkur 1976-78 og formaður Félags íslenskra tónlistarskólastjóra um skeið. Hann var sæmdur heiðursmerki FÍH 1976.

Þorvaldur lést 27.12. 2009.