Hjónin Katrín og Haukur stödd við Goðafoss síðastliðið sumar.
Hjónin Katrín og Haukur stödd við Goðafoss síðastliðið sumar.
Katrín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Sölku-Fiskmiðlunar á Dalvík, á 50 ára afmæli í dag. Hún tók við framkvæmdastjórastöðunni árið 2004, en hefur unnið hjá fyrirtækinu frá 1994.

Katrín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Sölku-Fiskmiðlunar á Dalvík, á 50 ára afmæli í dag. Hún tók við framkvæmdastjórastöðunni árið 2004, en hefur unnið hjá fyrirtækinu frá 1994.

„Við höfum sérhæft okkur í þurrkuðum fiskafurðum fyrir Nígeríumarkað, við erum útflutningsfyrirtæki og seljum fyrir framleiðendur. Nígeríumarkaður er búinn að ganga í gegnum erfiðleika frá 2015, það er minni peningur í umferð hjá þeim til að kaupa sér vöru og við fáum lægra verð fyrir afurðirnar. Það er samt mjög gott að eiga viðskipti við Nígeríumenn, þeir hafa verið mjög áreiðanlegir viðskiptavinir enda góð vara sem er verið að bjóða upp á.“

Katrín fer að jafnaði tvisvar á ári til Nígeríu í vinnuferðir og oftar ef eitthvað sérstakt er í gangi. „Við förum yfirleitt á þrjá til fjóra staði, helstu markaðirnir eru á þremur stöðum og svo erum við með góðgerðarstarfsemi á fjórða staðnum þar sem við ásamt fleiri hagsmunaaðilum í þessum þurrkaða fiskbransa á Íslandi styrkjum augnaðgerðir á fátæku fólki.“

Helstu áhugamál Katrínar eru samverustundir með fjölskyldu og vinum og handavinna. Íþróttir, útivist og ferðalög innanlands eru líka ofarlega á blaði. „Ætli ég sé ekki búin að keyra flestar götur í byggð á landinu. Svo stefni ég á að fara í Veiðivötn í sumar í fyrsta sinn með föður mínum, systkinum og fjölskyldum.“

Eiginmaður Katrínar er Haukur Snorrason, sem rekur innflutningsfyrirtækið Samleið. Börn þeirra eru Íris, 30 ára, Snorri Eldjárn, sem varð 27 ára á mánudag, og Sveinn Margeir, 16 ára.

„Ég held að ég hefji daginn með því að fara í ræktina kl. 6.15 eins og venjulega. Svo ætla ég að vera mestmegnis heima og skella í eina eða tvær kökur fyrir fjölskylduna og þá sem reka inn nefið. Trúlega endar dagurinn á súpukvöldi með vinkonum í blakfélaginu Rimum.“