Ragnhildur Helgadóttir, prófessor í stjórnskipunarrétti, er þriðji fyrirlesari í fyrirlestraröð RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum – og UNU-GEST – Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna – á vormisseri 2018.
Fyrirlestur hennar nefnist „Mannleg reisn í íslenskum rétti“ og er hann fluttur í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, kl. 12-13 á morgun, fimmtudaginn 8. febrúar.
Hugtakið „mannlega reisn“ er óvíða að finna í íslenskum rétti og ekki í stjórnarskrá. Í stjórnskipunarrétti virðist mannleg reisn hins vegar, m.a. á grundvelli alþjóðasamninga, talin undirstaða mannréttinda og því mikilvæg grunnregla í íslenskum rétti. Sem slíkt skiptir hún máli um túlkun annarra reglna. Mannleg reisn kemur hins vegar fyrir í lögum á heilbrigðissviði og dómstólar og umboðsmaður Alþingis hafa vísað til hennar nokkrum sinnum.
Fyrirlestraröð RIKK/UNU-GEST á vormisseri 2018 er tileinkuð Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna en í ár eru 70 ár síðan hún var samþykkt. Fyrirlesturinn er á ensku og er öllum opinn.