Eftir aukningu um 77 þúsund tonn í síðustu viku verður heildaraflamark á loðnu við Ísland 285 þúsund tonn á vertíðinni. Af þeim kvóta koma alls 199.826 tonn í hlut Íslendinga. Samkvæmt samningum við nágrannaþjóðir mega Færeyingar veiða 14.250 tonn við landið. Heimildir Grænlendinga voru 31.350 tonn, en þeir framseldu um 20 þúsund tonn til Evrópusambandsins, sem aftur framseldi þær heimildir til Noregs. Grænlendingar mega því veiða 11.350 tonn, en Norðmenn alls 73.824 tonn af loðnu í lögsögunni á þessari vertíð.
Í fyrra var endanlegur heildarkvóti upp á 299 þúsund tonn gefinn út er nokkuð var liðið á vertíð. Þar af komu 196 þúsund tonn í hlut íslenskra skipa og var verðmætið áætlað um 17 milljarðar. Mikið var fryst af hrognum í lok vertíðar, en nú hafa nokkur útgerðarfyrirtæki veitt verulegan hluta af kvótanum.