Þorsteinn Víglundsson
Þorsteinn Víglundsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ingveldur Geirsdóttir ingveldur@mbl.is Frumvarp til laga um mannanöfn, þar sem m.a. er lagt til að mannanafnanefnd verði lögð niður, kemur til fyrstu umræðu á Alþingi í vikunni.

Ingveldur Geirsdóttir

ingveldur@mbl.is

Frumvarp til laga um mannanöfn, þar sem m.a. er lagt til að mannanafnanefnd verði lögð niður, kemur til fyrstu umræðu á Alþingi í vikunni.

„Einhverjir hafa verið að líta á þetta frumvarp sem einhvers konar aðför að íslenskri mannanafnahefð en ég skil ekki hvernig á að túlka frelsi einstaklinga til að nefna börnin sín aðför að hefðum. Við erum ekki að gera annað en að leggja til að foreldrar fái að ráða þessu sjálfir og hafi meira frelsi í nafngiftinni en er nú,“ segir Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar og einn flutningsmanna frumvarpsins. „Ég held að það sé orðið löngu tímabært að horfast í augu við breytta tíma og færa þetta fyrirkomulag til nútímans,“ segir Þorsteinn enn fremur.

Frumvarpið byggist að hluta á frumvarpi sem Óttarr Proppé, þingmaður Bjartrar framtíðar, lagði fram 2014. Þorsteinn segir þó gengið heldur lengra í frelsisátt varðandi nafngiftir. „Það er líka sú nýbreytni að heimila fólki að breyta kynskráningu sinni í þjóðskrá undir sömu lagaskilyrðum og varðar mannanöfnin. Þá er verið að horfa til réttinda transfólks,“ segir Þorsteinn.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, minnti á frumvarpið í pontu Alþingis í gær þegar hann gerði frétt Morgunblaðsins um Alex Emmu, fjögurra ára stelpu, sem fær ekki að heita Alex í þjóðskrá, að umræðuefni. „Lög um mannanöfn voru ekki sett til að vernda börn, heldur til að vernda hefðir, til að vernda þá kröfu ríkisins að stjórna því hvað fólk í þessu landi heitir, sem er fráleitt,“ sagði Helgi og sagði barnaverndarlög eiga að passa upp á að börn fengju ekki fáránleg nöfn. Hann sagðist vona að frumvarpið yrði samþykkt og þau lög sem giltu nú um mannanöfn yrðu að einhvers konar sögulegu fyrirbæri sem enginn mundi nokkurn tíma vilja endurtaka á frjálsri jörð.