Víkingur AK Eftir gott kast á miðunum fyrir austan land í lok janúar, Halldór Jónasson, Albert Páll Albertsson og Brynjar Ingason. Síðustu daga hafa nokkur uppsjávarskipanna reynt fyrir sér á kolmunna fyrir sunnan Færeyjar.
Víkingur AK Eftir gott kast á miðunum fyrir austan land í lok janúar, Halldór Jónasson, Albert Páll Albertsson og Brynjar Ingason. Síðustu daga hafa nokkur uppsjávarskipanna reynt fyrir sér á kolmunna fyrir sunnan Færeyjar. — Morgunblaðið/Börkur Kjartansson
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Rannsóknaskipið Árni Friðriksson fer til frekari loðnumælinga um leið og veður leyfir. Haldið verður á loðnuslóð vestur af Vestfjörðum og landgrunnskanturinn kannaður austur að Kolbeinseyjarhrygg.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson fer til frekari loðnumælinga um leið og veður leyfir. Haldið verður á loðnuslóð vestur af Vestfjörðum og landgrunnskanturinn kannaður austur að Kolbeinseyjarhrygg.

Markmiðið er að kanna hvort bæst hafi í loðnugöngur norðvestur af landinu frá mælingum í lok janúar. Ekki er fyrirhugað að fara austur fyrir land og mæla göngurnar, sem þá voru mældar í tveimur yfirferðum, að sögn Þorsteins Sigurðssonar, fiskifræðings og sviðsstjóra uppsjávarlífríkis á Hafrannsóknastofnun.

Gæti skilað sér á lengri tíma

Hann segir að rökin fyrir þessum leiðangri séu þau að síðustu ár hafi hluti hrygningargöngunnar komið seint inn á landgrunnskantinn norðvestur af landinu. Í haust hafi loðnan verið langt norður í hafi og allt eins sé líklegt að hún skili sér inn á lengri tíma. Vandinn sé hins vegar sá að veðurspáin sé afleit, en reynt verði að sæta lagi þegar rofi til. Hann segir að hitt rannsóknaskipið, Bjarni Sæmundsson, sé í öðrum verkefnum.

Útreikningum á loðnumælingum beggja rannsóknaskipanna með aðkomu veiðiskipa, lauk á föstudag í síðustu viku. Í kjölfarið var gefin út fréttatilkynning þar sem sagði meðal annars:

„Gildandi aflaregla byggist á því að skilja eftir 150 þúsund tonn til hrygningar með 95% líkum. Tekur aflareglan tillit til óvissumats í mælingunum, vaxtar og náttúrulegrar dánartölu loðnu, auk þess sem afrán þorsks, ýsu og ufsa á loðnu er metið.

Samkvæmt samantekt endurtekinna bergmálsmælinga er metið að hrygningarstofn loðnu hafi verið 849.000 tonn hinn 15. janúar. Þá er tekið tillit til þess afla sem hafði veiðst þegar mælingar voru gerðar. Í samræmi við ofangreinda aflareglu verður heildaraflamark á vertíðinni 2017/2018 því 285 þúsund tonn, eða 77 þúsund tonnum hærra en ákvarðað var í október síðastliðnum.“

Mikilvægt að sé vel gert

Meðal útgerðarmanna og sjómanna voru væntingar um meiri aukningu og spurður hvort sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar hafi orðið fyrir miklum þrýstingi segir Þorsteinn Sigurðsson: „Við skiljum hvaða hagsmunir eru að baki og mikilvægi þess að þetta sé gert vel. Það er það sem við höfum reynt að gera og eftir þeim reglum sem við vinnum með. Það er slæmt ef menn skilja ekki nýju aflaregluna því við höfum oft farið yfir hana með hagsmunaaðilum. Það er þá verkefni að gera það enn einu sinni, en það gerist ekki fyrr en að lokinni loðnuvertíð.“

Garðar Svavarsson, framkvæmdastjóri uppsjávarsviðs HB Granda, segir á heimasíðu fyrirtækisins að útgerðarmenn standi með vísindamönnum í þeirri vegferð að ná sem best utan um stöðu loðnustofnsins og tryggja að nýting hans sé með ábyrgum hætti.

Er óbreytt aflaregla best?

,,Það verður hins vegar að eiga sér stað málefnalegt samtal um hvort núverandi óbreytt aflaregla sé best til þess fallin að tryggja hámarks afrakstur með ábyrgum hætti. Ég geri ráð fyrir því að þetta samtal muni eiga sér stað á komandi mánuðum. Verkefnið núna er að fara yfir það með Hafrannsóknastofnun hvaða kostir eru í stöðunni. Trú okkar er að tilefni sé til að leyfa meiri loðnuveiði, ákvörðun um slíkt verður þó eingöngu tekin ef niðurstaða frekari mælinga gefur tilefni til þess,“ er haft eftir Garðari á heimasíðunni.