[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þráinn Hallgrímsson fæddist á Siglufirði 7.2. 1948.

Þráinn Hallgrímsson fæddist á Siglufirði 7.2. 1948. Fjölskyldan flutti til Reykjavíkur árið 1956, svo hann stundaði barnaskólanám á Siglufirði og í Melaskólanum, lauk landsprófi frá Gagnfræðaskóla Vesturbæjar 1964, stúdentsprófi frá MR 1968, lauk BA-prófi í í ensku, frönsku og norsku 1973 og jafnframt námi í uppeldis- og kennslufræðum og stundaði frönskunám í Frakklandi og spænskunám í Santander á Spáni á árunum 1975 og 1976.

Þráinn vann ýmis verkamannastörf á unglings- og skólaárum og var tækjamaður og gröfumaður um skeið á háskólaárunum.

Þráinn starfaði við Iðnaðarbanka Íslands 1972-73, kenndi við MÍ 1973-80 og jafnframt við Kvöldskólann á Ísafirði og Gagnfræðaskólann og starfaði fyrir Iðnskóla Ísafjarðar, var blaðamaður á Alþýðublaðinu 1980-83 og blaðamaður og annar umsjónarmaður Helgarblaðs dagblaðsins Tímans 1983.

Þráinn varð fræðslufulltrúi MFA 1983, starfaði þar við Félagsmálaskóla alþýðu og sat í stjórn Tómstundaskólans á upphafsárum, undir stjórn MFA. Hann varð skrifstofustjóri ASÍ í árslok 1988 og til 1992, varð þá skólastjóri Tómstundaskólans og skólastjóri Mímis Tómstundaskólans 1995-96, var skrifstofustjóri Verkamannafélagsins Dagsbrúnar í Reykjavík 1996 og var það áfram er stéttarfélögin í Reykjavík sameinuðust, hjá Dagsbrún og Framsókn stéttarfélagi og síðan skrifstofustjóri Eflingar – stéttarfélags, við stofnun þess, og hefur gegnt því starfi síðan.

Þráinn var formaður fyrsta félagsmálaráðs Ísafjarðar um tveggja ára skeið og sat einnig í menningarráði Ísafjarðar á sama tíma, í stjórn Bréfaskólans frá 1986 og stjórnarformaður þar 1988-89, sat í stjórn MFA á Norðurlöndum um skeið, var námsstjóri við Norræna MFA-skólann 1986, sat í stjórn Genfarskólans, samnorræns skóla verkalýðshreyfingarinnar, 1988-2002 og sat í stjórn Neytendasamtakanna.

Þráinn sat í þríhliðanefnd ILO, Alþjóðavinnumálastofnunar fyrir ASÍ, fulltrúi launafólks á alþjóðavinnumálaþinginu í Genf í Sviss 1989-92, í ráðgjafarnefnd jafnréttisráðs 1988, í nefnd félagsmálaráðherra um starfsmenntun í atvinnulífinu 1989, var formaður tómstundaráðs Kópavogs, varaformaður skólanefndar Kópavogs í tvö kjörtímabil og er nú varamaður í velferðarráði Kópavogs fyrir Samfylkinguna.

Þráinn hefur haft umsjón með útgáfu á margvíslegu fræðslu- og upplýsingaefni fyrir skrifstofu ASÍ.

Þráinn er jafnaðarmaður af lífshugsjón og ævistarfi. Ef hann er ekki að auka jöfnuð í samfélaginu gefur hann sér tíma til að rækta landið. Á níunda áratugnum var hann formaður í mannréttindanefnd El Salvador á Íslandi og hefur stutt mannréttindasamtökin Amnesty.

Þráinn hefur alla tíð skemmt sér konunglega í vinnunni en hefur svo auk þess ýmis áhugamál. Hann er mikið fyrir útilíf og fjallgöngur, og hefur, ásamt fjölskyldunni, byggt upp orlofsdvalarstað nálægt Laugarvatni sem er friðarreitur fjölskyldunnar og heilnæmur vinnustaður. Þar hefur malargryfju verið breytt í unaðslegan gróðurreit. Hann liggur í bókmenntum og tónlist frá ýmsum löndum en Vínartónleikar eru efst á vinsældalistum um hver áramót auk þess sem hann heldur enn upp á Bítlana. En mest af öllu metur hann góðan félagsskap vina, fjölskyldu og vinnufélaga. Hann hefur áhuga á tungumálum og verður ástfanginn af gömlum og grónum borgum Evrópu, ekki síst Kaupmannahöfn, Vínarborg, München og Barcelona, að ógleymdri Santander á Norður-Spáni þar sem hann valdi við spænskunám.

„Ég er lukkunnar pamfíll. Hef átt góða og samhenta fjölskyldu, trausta vini og fengið að takast á við krefjandi verkefni alla starfsævina. Hvað er hægt að biðja um meira?“

Fjölskylda

Eiginkona Þráins er Þórunn Karitas Þorsteinsdóttir, f. 4.1. 1952, lengi starfsmaður Landsbankans.

Börn Þráins og Þórunnar Karitasar eru Jón Elías Þráinsson, f. 27.11. 1969, kerfisstjóri hjá Sjóvá, en hann á synina Márus Mána og Ívan Rökkva; Ólafur Þráinsson, f. 20.9. 1972, tæknimaður netlausna hjá Origo, kvæntur Svandísi Ernu Jónsdóttur og eiga þau börnin Arnór Tuma, Elvar Kára og Hrafnhildi Brynju, og Karitas Þráinsdóttur, f. 23.12. 1973, markaðsstjóri Íslensku Alpanna, á sambýlismanninn Guðmund Gunnlaugsson. og á hún börnin Valdísi Björk Valtýsdóttur, Brynjar Má Sigurjónsson og Karítas Dís Sigurjónsdóttur.

Foreldrar Þráins voru Hallgrímur Elías Márusson, f. 6.11. 1913, d. 24.6. 1998, klæðskeri og bílstjóri, og Hermína Guðrún Sigurbjörnsdóttir, f. 4.8. 1916. d. 21.3. 2008, húsfreyja.