[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Þessi mikla lækkun á milli ára er mjög ánægjuleg,“ segir Viðar Jensson, verkefnisstjóri tóbaksvarna hjá Embætti landlæknis.

Baksvið

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Þessi mikla lækkun á milli ára er mjög ánægjuleg,“ segir Viðar Jensson, verkefnisstjóri tóbaksvarna hjá Embætti landlæknis.

Í nýbirtum sölutölum á vef Vínbúðanna má sjá að sala á sígarettum dróst umtalsvert saman á síðasta ári. Samdrátturinn var nærri tíu prósent því árið 2016 seldist ríflega ein milljón kartona af sígarettum hér en árið 2017 seldust rétt ríflega 900 þúsund karton. Á sama tíma hefur landsmönnum fjölgað og ferðamenn eru á hverju strái.

Fleiri nota rafsígarettur

Síðustu misseri hefur verið mikil umræða um notkun rafsígaretta, eða veip. Samkvæmt tölum frá Embætti landlæknis fjölgaði þeim sem nota rafsígarettur daglega úr 3% árið 2016 í 4% árið 2017. Sama aukning varð á meðal þeirra sem reykja rafsígarettur sjaldnar en daglega, úr 3% árið 2016 í 4% árið 2017. Alls nota því 8% landsmanna rafsígarettur að einhverju marki samkvæmt þessum tölum.

Viðar segir í samtali við Morgunblaðið að aukin notkun á rafsígarettum kunni að spila inn í minni sölu á sígarettum.

„Það kann að vera ein skýringin núna allra síðustu ár. En það eru margir þættir sem koma þarna til. Söguleg þróun hefur legið niður á við. Reykingar hafa minnkað hjá báðum kynjum, hjá öllum aldurshópum og á öllum landsvæðum,“ segir hann.

„Árangur tóbaksvarna á Íslandi er góður og stefna stjórnvalda birtist meðal annars í aðild Íslands að Rammasamningi WHO um tóbaksvarnir og samþykkt Norðurlandaráðs um tóbakslaus Norðurlönd árið 2040. Ísland var árið 2016 í þriðja sæti meðal Evrópuþjóða í mælingum sem eru gerðar á framkvæmd sex lykilþátta til að ná niður neyslu tóbaks,“ segir Viðar, en þessir sex lykilþættir eru virk verðstýring, takmarkanir á svæðum þar sem reykingar eru leyfðar, upplýsingar og áróður í fjölmiðlum, bann við auglýsingum og kynningum á tóbaki, viðvörunarmerkingar á tóbaksvörur og aðstoð við að hætta tóbaksnotkun.

Tíu ár frá reykingabanni

Viðar rifjar upp sem dæmi um jákvæða þróun að í fyrra voru tíu ár liðin síðan bann við reykingum á veitinga- og skemmtistöðum tók gildi hér.

„Tíðni daglegra reykinga fullorðinna hefur dregist saman um helming á þessum tíu árum. Árið 2007 mældist tíðni daglegra reykinga fullorðinna í kringum 20% en mælist í dag rúmlega 10%,“ segir Viðar.

„Það hefur verið víðtæk samfélagssátt til áratuga um að vinna gegn útbreiðslu tóbaksneyslu og skaðsemi hennar. Nú eru fleiri íbúar hér á landi sem aldrei hafa reykt en þeir sem reykja eða hafa hætt. Eftir því sem árangur hefur náðst hafa áherslur beinst að því að vernda það fólk sem ekki reykir fyrir tóbaksreyk annarra. Öll markmið um að lönd verði tóbakslaus miðast við að ná fimm prósenta markinu. Við munum mögulega aldrei ná núlli en við erum algjörlega á réttri leið.“