Efnileg Sandra Erlingsdóttir er aðeins 19 ára gömul en hún lék kornung í efstu deild Þýskalands með Füchse Berlín og er sitt annað tímabil í stóru hlutverki hjá ÍBV.
Efnileg Sandra Erlingsdóttir er aðeins 19 ára gömul en hún lék kornung í efstu deild Þýskalands með Füchse Berlín og er sitt annað tímabil í stóru hlutverki hjá ÍBV. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÍBV Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Tólf ár eru að verða liðin síðan glæstu gullskeiði í sögu kvennaliðs ÍBV í handbolta lauk.

ÍBV

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Tólf ár eru að verða liðin síðan glæstu gullskeiði í sögu kvennaliðs ÍBV í handbolta lauk. Miðað við spilamennsku liðsins í fyrstu leikjunum eftir jólafrí gæti verið farið að styttast verulega í næstu gullverðlaun þess, þó að eflaust sé of snemmt að segja til um það.

Eyjakonur eru í 4. sæti Olís-deildarinnar með 22 stig eftir 16 leiki, aðeins fjórum stigum á eftir toppliði Vals. Fimm umferðir eru eftir af deildarkeppninni og þarf mikið að fara úrskeiðis til að ÍBV komist ekki í fjögurra liða úrslitakeppnina, því liðið er fimm stigum á undan næsta liði, Stjörnunni. ÍBV og Stjarnan mætast reyndar einmitt í kvöld, en sá leikur er í bikarkeppninni og snýst um það hvort liðanna kemst í undanúrslit þeirrar keppni, í Laugardalshöll.

„Við höfum verið að spila ágætlega og náð góðum hálfleikjum. Vörnin hefur haldið vel og markvarslan fylgt á eftir. Við erum á ágætri leið með okkar markmið,“ segir Guðný Jenny Ásmundsdóttir, landsliðsmarkvörður og fyrirliði ÍBV. Hún segir vissulega mega greina mun á leik liðsins frá því fyrr á leiktíðinni, en ÍBV vann Hauka 25:14 á útivelli í síðasta leik, og Val 31:27 þar á undan. Valur og Haukar eru í efstu sætum deildarinnar. „Mér finnst við kannski aðallega hafa mætt með hausinn betur skrúfaðan á í þessa leiki.“

Nokkuð langt liðið frá síðasta úrslitaleik

Hver svo sem galdurinn er þá er ÍBV þegar komið með fimm stigum meira en á allri síðustu leiktíð, þegar liðið hafnaði í 5. sæti og var talsvert frá því að komast í úrslitakeppnina. Sigur í kvöld myndi svo koma liðinu í Laugardalshöll, í undanúrslit bikarkeppninnar, en það tókst síðast árið 2015. Því er þó ekki að neita að ÍBV hefur verið með eitt af betri liðum landsins stærstan hluta þessarar aldar. Liðið varð fjórum sinnum Íslandsmeistari og þrisvar bikarmeistari á árunum 2000-2006, en á síðustu árum hefur vantað herslumuninn til að vera í allra fremstu röð. Liðið hefur ekki leikið til úrslita á Íslandsmótinu síðan 2006, og aðeins einu sinni í bikarúrslitum en þá steinlá liðið gegn Val, árið 2012.

Leikmannahópurinn í dag er hins vegar vel skipaður og til alls líklegur. Hrafnhildur Skúladóttir tók við þjálfun liðsins sumarið 2015, og sumarið 2016 styrktist liðið mikið með tilkomu Jennyjar, Karólínu Bæhrenz Lárudóttur og Söndru Erlingsdóttur.

Ester Óskarsdóttir er að öðrum ólöstuðum algjör lykilmaður Eyjaliðsins, bæði í vörn og sókn, og fékk sérstakt hrós landsliðsþjálfarans vegna frammistöðu sinnar í landsleikjum síðasta haust. Hún leikur í vinstri skyttustöðunni en Sandra stýrir iðulega leik liðsins, auk þess að skora einnig mikið. Sandra kom aftur til Eyja eftir að hafa leikið með Füchse Berlín í efstu deild Þýskalands, á meðan faðir hennar þjálfaði karlalið félagsins. Í hægri skyttustöðunni er Sandra Dís Sigurðardóttir nú eini örvhenti leikmaðurinn en hin litháíska Greta Kavaliuskaite, sem kom til ÍBV árið 2015, leikur meira í þeirra stöðu eftir að Díana Kristín Sigmarsdóttir söðlaði um og fór til Noregs um áramótin. Shadya Goumaz var svo að bætast í hópinn sem skytta og gæti smám saman unnið sér inn stærra hlutverk í liðinu.

Karólína leikur í hægra horninu og er einnig afar mikilvæg í hraðaupphlaupunum sem liðið skapar sér með varnarleik sínum og Jenny í markinu. Kristrún Ósk Hlynsdóttir leikur í vinstra horninu og strandhandboltastjarnan Asun Batista á línunni.

Burðarásarnir íslenskir í dag

„Staðan á okkar liði er bara góð og vonandi getum við komið okkur hærra upp en í 4. sæti. Ef við höldum rétt á spöðunum getum við alveg náð því. Við erum á pari við flest liðin, en erum svo sem ekki með mestu breiddina samanborið við lið eins og Stjörnuna, Val og Fram. Við erum þó með fína breidd,“ segir Jenny.

„Við höfum núna fengið Shadyu Goumaz inn í hópinn og hún hefur komið virkilega vel út bæði í vörn og sókn, þó að hún sé ekki búin að spila mikið. Ég er mjög spennt fyrir framhaldinu hjá okkur,“ segir Jenny.

Segja má að Ester, Sandra, Karólína og Jenny séu burðarásar ÍBV en erlendir leikmenn settu sterkari svip á liðið þegar það vann alla sína átta stóru titla á fyrstu sex árum aldarinnar. Alltaf voru þó heimakonur í stórum hlutverkum, til að mynda markmaðurinn Vigdís Sigurðardóttir og Ingibjörg Jónsdóttir þegar liðið varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn árið 2000. Vigdís hélt króatíska markverðinum Lukreciju Bokan að mestu á bekknum en landa hennar Amela Hegic stýrði leik Eyjaliðsins, og hin norska Anita Andreasson var markahæst í liðinu. Sigbjörn Óskarsson var þjálfari ÍBV þegar liðið landaði fyrsta Íslandsmeistaratitlinum, en það var Unnur Sigmarsdóttir sem stýrði liðinu til þess næsta, árið 2003.

Komust í undanúrslit Áskorendabikars Evrópu

Vigdís og Ingibjörg voru áfram lykilmenn í Eyjaliðinu sem varð Íslandsmeistari 2003, en þá var einnig komin í liðið hin georgíska Alla Gokorian sem hafði verið áberandi í íslenskum handbolta í mörg ár. Alla, og þær Anna Yakova, Birgit Engl og Sylvia Strass voru mikilvægar í Íslandsmeistaratitlunum tveimur 2003 og 2004, og Ester var komin inn í hópinn seinna árið sem og Guðbjörg Guðmannsdóttir sem skoraði mikið fyrir liðið.

Að flestra mati er lið ÍBV árið 2004 eitt það besta sem komið hefur fram í íslenskum handbolta en auk þess að vinna þrefalt á Íslandi þá komst liðið í undanúrslit Áskorendabikars Evrópu. Í undanúrslitunum mætti ÍBV liði Nürnberg frá Þýskalandi og varð að sætta sig við tvö stór töp, en þess ber að geta að Nürnberg vann svo í kjölfarið keppnina. Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfaði ÍBV og var á lokahófi HSÍ þetta ár valinn besti þjálfarinn, Strass besti leikmaðurinn og Engl besti varnarmaðurinn, en báðar voru austurrískar landsliðskonur.

Ester og Ingibjörg unnu einnig titilinn 2006, en þá var Florentina Stanciu, síðar landsliðsmarkvörður Íslands, komin í markið og þær Pavla Plaminkova og Simona Vintila helstu markaskorararnir. Vintila var valin besti leikmaður tímabilsins. Plaminkova, sem er Tékki, skoraði 126 mörk og varð svo markadrottning deildarinnar árið eftir með 206 mörk í 24 leikjum.

Alltaf stutt vel við bakið á okkur

ÍBV missti sína helstu leikmenn eftir tímabilið 2007 og neyddist á endanum til að sleppa því að senda lið til keppni, enda hefði það þá annaðhvort verið skipað afar ungum leikmönnum eða að stærstum hluta skipað erlendum leikmönnum. Liðið hefur hins vegar náð sér vel á strik síðan þá, er komið aftur í baráttuna um efstu sætin og hver veit nema stuðningsmenn ÍBV geti fagnað á ný áður en langt um líður, eins og Jenny segir að þeir verðskuldi svo sannarlega:

„Það er alltaf góð stemning í kringum liðið, stutt vel við bakið á okkur og vel mætt á leiki. Það eru oft töluvert fleiri mættir á heimaleiki hjá okkur en á leiki í Reykjavík. Ég er mjög ánægð með stuðninginn og held að við séum bara með bestu stuðningsmennina.“