Nýi völlurinn Þarna verður hægt að iðka allar greinar frjálsra íþrótta. ÍR er í dag stórveldi í íþróttagreininni.
Nýi völlurinn Þarna verður hægt að iðka allar greinar frjálsra íþrótta. ÍR er í dag stórveldi í íþróttagreininni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Borgarráð hefur samþykkt að heimila umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir við frágang frjálsíþróttavallar og byggingu þjónustuhúss á svæði ÍR í Suður-Mjódd. Áætlaður kostnaður er 400 milljónir króna.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Borgarráð hefur samþykkt að heimila umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir við frágang frjálsíþróttavallar og byggingu þjónustuhúss á svæði ÍR í Suður-Mjódd. Áætlaður kostnaður er 400 milljónir króna. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir geti hafist í næsta mánuði. Ljúka á frágangi frjálsíþróttavallarins sumarið 2018 og áætlað er að þjónustuhúsið verði fullgert vorið 2019.

Fram kemur í minnisblaði Ámunda Brynjólfssonar, skrifstofustjóra framkvæmda og viðhalds hjá borginni, að þessar framkvæmdir séu í samræmi við samning Reykjavíkurborgar og Íþróttafélags Reykjavíkur sem samþykktur var í borgarráði í janúar 2017.

Jarðvinnu á svæðinu lokið

Jarðvinnu á ÍR-svæðinu er lokið, en kostnaður við hana var 180 milljónir króna. Heildarkostnaður við völlinn og þjónustuhús er því áætlaður 580 milljónir króna.

Á hinum nýja velli verður hægt að iðka allar greinar frjálsra íþrótta.

Lögleg hlaupabraut, 400 metra löng, mun umlykja völlinn. Í miðju svæðisins verða m.a. lendingarsvæði kastgreina og utan hlaupabrauta verða svæði fyrir stökkgreinar. Völlurinn mun uppfylla alþjóðlegar kröfur sem gerðar eru til keppnisvalla. Aðkoma að vallarsvæðinu verður frá félagsheimili ÍR.

Í þjónustuhúsinu verður aðstaða til mótahalds s.s. tímatöku – og mótsstjórn. Einnig verður þar veitingasala, snyrtingar, aðstaða fyrir notendur vallarins og geymslur. Byggingin verður tvær hæðir og að hluta grafin inn í landið. Þak hússins á að nýtast fyrir áhorfendur á mótum. Heildarflatarmál hússins er 442,8 fermetrar.

Í fyrrnefndum samningi borgarinnar og ÍR er gert ráð fyrir frekari framkvæmdum af hálfu borgarinnar.

Þar á m.a. að reisa knatthús sem og íþrótta- og keppnishús með löglegum völlum fyrir körfubolta og handknattleik. Aðstaða í félagsheimilinu verður bætt og búningsaðstaða endurbætt.

Loks var í samkomulaginu gert ráð fyrir að hefja undirbúning að byggingu fimleikahúss. Uppbygging þess á að hefjast í framhaldi af byggingu knatthússins og íþróttahússins.