Samprjón Fullt var út úr dyrum á Kex hosteli, þegar samkeppnin hófst formlega. Hildur Ýr er fremst.
Samprjón Fullt var út úr dyrum á Kex hosteli, þegar samkeppnin hófst formlega. Hildur Ýr er fremst. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Fullt var út úr dyrum í sal Kex hostels í fyrrakvöld, þegar samprjón á sjalinu Quality Street eftir Hildi Ýri Ísberg, framhalds- og háskólakennara, hófst formlega.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Fullt var út úr dyrum í sal Kex hostels í fyrrakvöld, þegar samprjón á sjalinu Quality Street eftir Hildi Ýri Ísberg, framhalds- og háskólakennara, hófst formlega. Auk þess kom áhugafólk um prjónamennsku, mest konur, saman á ýmsum stöðum úti á landi og jafnvel í útlöndum í sama tilgangi, en samprjónið er jafnframt samkeppni.

Eftir að Hildur hafði hannað uppskriftina hafði hún samband við konurnar sem standa að fésbókarsíðunni Svöl sjöl og spurði hvort þær vildu taka uppskriftina inn í samprjón, enda reyndar á því sviði. „Þær tóku vel í það og þátttakan hefur farið fram úr björtustu vonum, en rúmlega 600 manns hafa keypt uppskriftina og skráð sig í samkeppnina,“ segir hún.

Samprjón felst í því að margir prjóna sömu uppskrift saman og deila myndum sín á milli, einkum á netinu. Hildur segir að vegna þess hve mikil stemning hafi verið fyrir þessu samprjóni hafi hún ákveðið að kanna hug á samverustund, þegar samkeppnin færi af stað. „Það var mikil stemning fyrir því að halda partí og því fékk ég salinn hjá Kex hosteli.“

Prjónafólkið hittist víða annars staðar, meðal annars á Akureyri, Ísafirði, Akranesi, Selfossi, Reykjanesbæ og í Kaupmannahöfn og var í sambandi á Snapchat. „Þetta var mjög gaman, um 80 manns fylltu salinn á Kex hosteli og þessi mikli áhugi kemur okkur skemmtilega á óvart,“ segir Hildur.

Litríkt og skemmtilegt

Engin ein skýring er á þessum áhuga á prjónaskap. Hildur nefnir að margt prjónafólk sé nýbúið að prjóna jólagjafir og hugsi sem svo að það þurfi líka að gera eitthvað fyrir sig. „Það varð mikil aukning í prjónaskap í hruninu, margir hafa tekið fram prjóna og prjónabúðum hefur fjölgað,“ segir hún. Samprjón hafi notið vinsælda og garn í Quality Street-sjölin sem Hafdís Ósk Gísladóttir, eigandi Vivid Wool, hafi tekið saman í pakka hafi selst upp þrisvar.

Sjálf byrjaði Hildur að prjóna þegar hún var sex ára. „Amma mín kenndi mér að prjóna og ég hef alltaf prjónað af og til síðan,“ segir hún. Bætir við að undanfarin 12 ár hafi prjónaskapur verið helsta áhugamálið og skemmtilegast sé að prjóna það sem hún fáist við hverju sinni. Hún bendir á að sjalið sé mjög litríkt. „Það er oft allt frekar grátt á þessum árstíma og því er gott að hafa eitthvað litríkt fyrir framan sig á meðan maður bíður eftir vorinu,“ segir hún.

Nokkrar konur prjónuðu prufusjal og eru myndir af þeim komnar inn á fyrrnefnda síðu. Hildur segir að nöfn þeirra sem ljúka við sjalið fyrir þriðjudaginn 3. apríl fari í pott og verði dregið um vinninga eins og til dæmis garn, prjónatöskur og fleira.