Það gerist ekki oft að sami aðili taki við sama liðinu þrisvar. En nú er Guðmundur Þ. Guðmundsson orðinn þjálfari karlalandsliðs Íslands í handbolta í þriðja sinn.
Það gerist ekki oft að sami aðili taki við sama liðinu þrisvar. En nú er Guðmundur Þ. Guðmundsson orðinn þjálfari karlalandsliðs Íslands í handbolta í þriðja sinn.

Án þess að hafa um það einhverja tölfræði á reiðum höndum hef ég sennilega skrifað fleiri fréttir um Guðmund en flesta aðra íslenska íþróttamenn eða þjálfara. Enda erum við jafnaldrar og ég fylgdist með honum sem sigursælum leikmanni í mögnuðu liði Víkings og í ótal landsleikjum á sínum tíma.

Eitt augnablik frá þeim ferli gleymist aldrei. Ég var í Bern 28. febrúar 1986 þegar Ísland vann þáverandi stórveldið Rúmeníu og tryggði sér sæti í milliriðli HM. Guðmundur gulltryggði sigurinn úr vinstra horninu í lokin og „steig stríðsdans um allan sal“ eins og undirritaður skrifaði í Þjóðviljann eftir leik.

Ég fylgdi Gumma og landsliðinu á Ólympíuleikana í Aþenu 2004 og þar áttum við langt og gott spjall í uppgjöri að móti loknu. Eftir það hvarf hann á braut en þegar kom að fyrsta verkefni hans í næstu lotu, vorið 2008, var ég með landsliðinu í Wroclaw í Póllandi.

Þar vannst ævintýralegur sigur á Svíum, sæti á ÓL 2008 var tryggt og framhaldið þekkja allir. Silfur í Peking og brons í Vínarborg.

Guðmundur er í kjölfarið gríðarlega vinsæll á Íslandi. Það fann maður ekki síst í kringum nýlokið Evrópumót. „Ég held sko með Svíum, ekki Dönum. Þeir fóru svo illa með Gumma.“ Þetta heyrðist úr mörgum áttum.

Velkominn til leiks á ný, Gummi. Það verður áhugavert að fylgjast með framvindu mála hjá landsliðinu næstu árin.