Hvað er eðlilegur kvíði og hvenær er kvíði orðinn að vanda? Hvað er til ráða? Ólöf Edda Guðjónsdóttir sálfræðingur mun fjalla um einkenni kvíða hjá börnum og unglingum kl. 20-22 í kvöld, miðvikudaginn 7. febrúar, í Lífsstílskaffi í Borgarbókasafninu, menningarhúsi Gerðubergi.
Ólöf starfar sem sálfræðingur hjá Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis þar sem hún sinnir greiningu á leik- og grunnskólabörnum ásamt ráðgjöf til foreldra og starfsmanna á leikskóla. Á þjónustumiðstöðinni heldur Ólöf námskeiðið Klókir krakkar og Klókir litlir krakkar fyrir börn með kvíða og foreldra þeirra. Þar heldur hún einnig HAM-námskeið fyrir unglinga með einkenni kvíða og depurðar. Ólöf starfar einnig á Heilsuborg þar sem hún sinnir einstaklingsmeðferð barna og unglinga vegna kvíða, depurðar og lágs sjálfsmats og ráðgjöf til foreldra.
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.