Víkverji hefur gaman af að fara í bíó og finnst snöggtum meira púður í að sjá mynd á hvíta tjaldinu, en á sjónvarpsskjá, þótt þeir séu orðnir fullkomnari með árunum og hljóðið heima í stofu hafi snarbatnað.

Víkverji hefur gaman af að fara í bíó og finnst snöggtum meira púður í að sjá mynd á hvíta tjaldinu, en á sjónvarpsskjá, þótt þeir séu orðnir fullkomnari með árunum og hljóðið heima í stofu hafi snarbatnað. Úrvalið í kvikmyndahúsunum getur verið einhæft en það glæðist einatt í upphafi árs með dögum franskra og þýskra kvikmynda. Frakkarnir riðu á vaðið í janúar og nú um mánaðamótin hófust þýskir bíódagar. Víkverji náði að sjá tvær franskar myndir og er með tvær í sigtinu á þýskum dögum. Vonandi verða einhverjar þeirra sýndar áfram.

Víkverji er vanur að fá sér stóran popp þegar hann fer á bíó, en á annarri frönsku myndinni var hann nýbúinn að borða kvöldmat og hafði ekki sömu popplyst og venjulega. Myndin fór mjög rólega af stað og hefur Víkverji sjaldan heyrt aðra eins poppskruðninga og í upphafi myndar. Þarna er kannski komin meginástæðan fyrir því að byrja myndir með látum. Það þarf að yfirgnæfa skrjáfið í popppokunum.

Nútímatækni býður upp á ýmsa möguleika. Víkverji sat um helgina í bíl á ferð um Suðurland. Kveikt var á útvarpinu og sú tíð er liðin að leita þurfi að stöðvum. Útvarpið finnur stöðvarnar og stillir þær inn. Þegar stillt er á stöð birtist nafn hennar á skjánum. Í bílnum þennan eftirmiðdag var stillt á Rás 2 og Ólafur Páll Gunnarsson útvarpsmaður rakti sögu hljómsveitarinnar Cranberries og írsku söngkonunnar Dolores O'Riordan, sem féll frá fyrir skömmu. Á skjá fyrir ofan útvarpið birtist heitið á útvarpsstöðinni. Þar fyrir neðan birtust til skiptis upplýsingar um tíðni langbylgjusendisins á Gufuskálum og tilkynning þess efnis að það borgaði sig að auglýsa á samtengdum rásum. Víkverji hefur tekið eftir því að sumar útvarpsstöðvar nota tæknina til að senda upplýsingar með lögum um hvaða flytjandi sé á ferð. Hann áttar sig hins vegar ekki á því hvers vegna ríkismiðlinum er mest í mun að koma skilaboðum til ökumanna um ágæti þess að auglýsa í útvarpinu.