Tomas Svensson
Tomas Svensson
Tomas Svensson, sem mun aðstoða Guðmund Þórð Guðmundsson við þjálfun landsliðsmarkvarða Íslands í handknattleik, á glæsilegan feril að baki. Íslenska landsliðið er þriðja liðið þar sem hann og Guðmundur vinna saman frá árinu 2011.

Tomas Svensson, sem mun aðstoða Guðmund Þórð Guðmundsson við þjálfun landsliðsmarkvarða Íslands í handknattleik, á glæsilegan feril að baki. Íslenska landsliðið er þriðja liðið þar sem hann og Guðmundur vinna saman frá árinu 2011.

Tomas Svensson lék 327 landsleiki fyrir Svía og vann með þeim fimm gullverðlaun á stórmótum en hann var í heimsmeistaraliði þeirra 1990 og 1999 og varð Evrópumeistari með Svíum 1994, 2000 og 2002. Þá fékk Svensson silfurverðlaun með sænska liðinu á Ólympíuleikum, og eitt silfur og tvö brons á HM.

Kvaddi eftir tapið í Wroclaw

Með sænska landsliðinu lék hann til fertugs og lagði landsliðsskóna á hilluna árið 2008. Guðmundur stýrði Íslandi til eftirminnilegs sigurs á Svíþjóð, 29:25, í Wroclaw í Póllandi 1. júní 2008, í hreinum úrslitaleik um sæti á Ólympíuleikunum í Peking, og þá stóð Svensson í marki Svía í síðasta skipti.

Svensson varði mark nokkurra af bestu félagsliðum heims og afrekaði m.a. að verða Evrópumeistari sex ár í röð, fyrst með Bidasoa á Spáni og síðan í fimm ár með Barcelona. Hann lék líka með Atlético Madrid, Portland og Valladolid á Spáni og þýsku liðunum HSV Hamburg og Rhein-Neckar Löwen.

Svensson lauk ferlinum sem leikmaður 44 ára gamall hjá Löwen árið 2012. Þar var hann jafnframt í þrjú ár Guðmundi til aðstoðar, en Guðmundur var þá þjálfari Löwen. Guðmundur fékk síðan Svensson aftur í lið með sér þegar hann var landsliðsþjálfari Dana. vs@mbl.is