Á virkum dögum hlusta ég aðallega á útvarp á morgnana og síðdegis. Já, og svo auðvitað á hádegis- og kvöldfréttir. Þetta útvarpshlustunarmynstur er fyrst og fremst komið til af því að ég mæti í vinnu á morgnana og fer heim seinnipartinn og á þeim ferðum gefst tækifæri til að hlusta á útvarp.
Á þeim sex útvarpsstöðvum sem hafa einna mesta hlustun stýra samtals fjórar konur og 11 karlar morgunþáttum. Hlutföllin eru 27% konur og 73% karlar.
Síðdegis er staðan svipuð. Átta karlar og þrjár konur stýra síðdegisþáttum á þessum sömu sex útvarpsstöðvum og hlutföllin eru þau sömu og á morgnana: 27% konur, 73% karlar.
Í gegnum tíðina hafa ýmsar skýringar verið nefndar á þessu, m.a. að konur séu svo uppteknar á morgnana við að koma börnum í skólann og síðdegis við að sækja þau (já – þetta sagði einhver einhverntímann ekki alls fyrir löngu!). Svo hefur líka verið sagt að konur þori ekki að vera í fjölmiðlum.
Væri ekki nær að leita skýringa hjá stjórnendum útvarpsstöðva og spyrja hvort þeim finnist þetta engu máli skipta? Eða hvort þeir telji hreinlega að konur séu verr til þess fallnar að starfa í útvarpi en karlar?
Anna Lilja Þórisdóttir