[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
*Ellefu Íslendingar taka þátt í Norðurlandamótinu í frjálsíþróttum í Uppsala í Svíþjóð á sunnudaginn kemur. Ísland og Danmörku senda þar sameiginlegt lið til keppni.

*Ellefu Íslendingar taka þátt í Norðurlandamótinu í frjálsíþróttum í Uppsala í Svíþjóð á sunnudaginn kemur. Ísland og Danmörku senda þar sameiginlegt lið til keppni. Þangað fara fyrir Íslands hönd Hulda Þorsteinsdóttir, Tiana Ósk Whitworth, Ívar Kristinn Jasonarson, Arna Stefanía Guðmundsdóttir, Þórdís Eva Steinsdóttir, Einar Daði Lárusson, Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir, Kristinn Torfason, Irma Gunnarsdóttir, Bjarki Gíslason og Guðni Valur Guðnason .

* Sigrún Sjöfn Ámundadóttir úr Skallagrími getur ekki leikið með landsliðinu í körfuknattleik gegn Bosníu og Svartfjallalandi í undankeppni EM á laugardag og miðvikudag. Hún er ekki búin að jafna sig eftir slæm meiðsli sem hún varð fyrir í vetur. Samherji hennar úr Skallagrímsliðinu, Jóhanna Björk Sveinsdóttir , fór í staðinn með liðinu til Bosníu í gær.

* Ronald Koeman var í gær ráðinn landsliðsþjálfari Hollendinga í knattspyrnu. Er honum ætlað að blása lífi í hollenska landsliðið sem hefur verið í mikilli lægð síðustu ár. Koeman var rekinn úr starfi sem knattspyrnustjóri Everton í október. Hann tekur við þjálfun landsliðsins af Dick Advocaat . Koeman lék 74 leiki með hollenska landsliðinu 1982-1994 og skoraði 14 mörk.

* Haraldur Franklín Magnús og Guðmundur Ágúst Kristjánsson atvinnukylfingar eru jafnir í 8.-11. sæti á tveimur höggum yfir pari eftir fyrri daginn á Westin La Quinta-mótinu í golfi á Spáni í gær, en mótið er liður í Gecko-mótaröðinni. Leiknir eru tveir hringir á dag á þessu tveggja daga móti. Guðmundur lék fyrri hringinn á 71 höggi, eða á pari vallarins, og seinni hringinn á 73 höggum eða tveimur höggum yfir pari. Haraldur lék hins vegar fyrri hringinn á 73 höggum og þann seinni á 71 höggi. Oliver Lindell frá Finnlandi er efstur á sjö höggum undir pari. Síðari tveir hringirnir verða leiknir í dag.