Margréti Sanders
Margréti Sanders
Eftir Margréti Sanders: "Um 67% þjóðarinnar bera traust til verslunar á Íslandi."

Í nýrri könnun eins virtasta markaðsfyrirtækis landsins mælist íslensk verslun með 67% traust íslensku þjóðarinnar. Til hamingju verslunarmenn, til hamingju Íslendingar.

Sjálfstæðisbaráttan tengdist verslun

Það er mikilvægt hverri atvinnugrein að starfa í sátt og samlyndi við samfélag sitt. Íslensk verslun hefur um aldir verið nátengd hagsmunum þjóðarinnar, enda var það eitt af stóru hagsmunamálunum í sjálfstæðisbaráttu okkar, að verslunin kæmist í okkar eigin hendur. Sú barátta stóð lengi og var að lokum farsællega til lykta leidd af sjálfstæðishetjum okkar, eins og svo vel er lýst í því stórkostlega ritverki „ Líftaug landsins – saga íslenskrar utanríkisverslunar 900 – 2010“, sem nýlega kom út.

Samfélagsmiðlar gefa rödd

Fullyrða má að fáar ef nokkrar atvinnugreinar hafa búið við jafn óvægna gagnrýni og verslunin hefur mátt sæta, og hefur verslunin margoft verið skotspónn þeirra sem hafa séð sér hag í því að tortryggja hana. Nú í seinni tíð hefur almenningur fengið rödd í gegnum samfélagsmiðlana. Virðist sú umræða vera að ná jafnvægi og snúast meira um neytendavernd, þjónustu og upplýsta umræðu sem verslunin fagnar. Það vita allir sem reynt hafa hversu erfitt getur verið að rísa undir gagnrýni sem þessari. Íslensk verslun hefur hingað til staðið allt slíkt af sér og það er engin ástæða til að ætla annað en svo verði áfram.

Tæplega 70% traust

Það er sérstakt ánægjuefni að finna hversu mikillar velvildar íslensk verslun nýtur núna meðal þjóðarinnar, sérstaklega í ljósi umræðunnar. Í fyrrgreindri könnun kemur fram að um 67% þjóðarinnar bera traust til verslunar á Íslandi. Þessi niðurstaða er mjög ánægjuleg, ekki síst í því ljósi þess að opinber umræða um atvinnugreinina var óneitanlega fremur neikvæð á sl. ári. Að finna að verslunin nýtur svo mikils trausts og velvildar hjá þjóðinni er greininni mikil hvatning til þess að gera enn betur.

Sóknarhugur á tíma breytinga

Íslensk verslun er í sóknarhug. Fram undan eru miklar áskoranir í síbreytilegu umhverfi, umhverfi sem tekur meiri og hraðari breytingum en nokkru sinni fyrr. Íslensk verslun er staðráðin í því að laga sig að þessum breytingum, vera áfram öflugur þátttakandi í íslensku atvinnulífi og halda áfram að þjóna vel kröfuhörðum neytendum. Þannig gerum við betur, þannig eflist íslensk verslun og þannig höldum við þessu öfluga trausti Íslendinga – okkur öllum til hagsbóta.

Höfundur er formaður Samtaka verslunar og þjónustu.

Höf.: Margréti Sanders