Uppskipun Öðrum farmi ársins af trjábolum skipað upp á Húsavík. Í hverjum farmi eru 5-6 þúsund tonn.
Uppskipun Öðrum farmi ársins af trjábolum skipað upp á Húsavík. Í hverjum farmi eru 5-6 þúsund tonn. — Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson
Starfsmenn kísilvers PCC Bakki Silicon ehf. á Bakka við Húsavík undirbúa starfrækslu versins alla daga. Safnað er birgðum hráefnis í geymslur á lóð fyrirtækisins. Síðast var skipað upp miklum farmi af finnskum trjám.

Starfsmenn kísilvers PCC Bakki Silicon ehf. á Bakka við Húsavík undirbúa starfrækslu versins alla daga. Safnað er birgðum hráefnis í geymslur á lóð fyrirtækisins.

Síðast var skipað upp miklum farmi af finnskum trjám. Þau verða bútuð niður og notuð ásamt kolum til að framkalla efnaferla til að framleiða kísilinn. Hafsteinn Viktorsson, forstjóri kísilversins, segir að talið sé betra fyrir framleiðsluna að kaupa trén í heilu lagi og búta þau niður á verksmiðjulóðinni. Þau verða söguð í litla búta, af svipaðri stærð og eldspýtnastokkar.

Kísilverið notar um 40 þúsund tonn af timbri á ári. Hafsteinn segir að rætt hafi verið við íslenska skógarbændur um að útvega hluta af trjánum og einn hafi afhent þeim prufusendingu. Vonast hann til að geta fengið eitthvað af íslensku timbri í framleiðsluna en tekur fram að íslenskir skógar muni aldrei anna allri þörf kísilversins.

Gangsetning nálgast

Fyrirhugað er að gangsetja fyrri ofn kísilversins síðari hluta febrúarmánaðar. Kom það fram á kynningarfundi félagsins á Húsavík á dögunum. Er það nokkru seinna en stjórnendur fyrirtækisins hafa stefnt að en þeir segja að aðalatriðið sé að öll tæki virki örugglega rétt. Fyrr verði kísilverið ekki gangsett.

Síðari ofninn verður væntanlega gangsettur í apríl.

helgi@mbl.is