Bogi Þór Arason bogi@mbl.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Leyniþjónustunefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings hefur samþykkt einróma að birta nýtt minnisblað demókrata þar sem vísað er á bug ásökunum repúblikana í nefndinni um að alríkislögreglan FBI og dómsmálaráðuneytið hafi misbeitt valdi sínu í pólitískum tilgangi. Donald Trump Bandaríkjaforseti getur hindrað birtingu minnisblaðsins og hefur fimm daga til að ákveða hvort hann geri það.

Demókratar í leyniþjónustunefndinni skrifuðu tíu síðna minnisblað til að svara fjögurra síðna minnisblaði sem formaður nefndarinnar, repúblikaninn Devin Nunes, skrifaði ásamt samstarfsmönnum sínum. Nunes, sem er bandamaður Trumps, sakar þar embættismenn FBI og dómsmálaráðuneytisins um að hafa misbeitt valdi sínu þegar þeir óskuðu eftir heimild sérstaks dómstóls til að njósna um Carter Page, sem var um tíma ráðgjafi Trumps í utanríkismálum í kosningabaráttunni árið 2016. Trump heimilaði birtingu minnisblaðsins frá Nunes, þótt FBI og dómsmálaráðuneytið hefðu lagst gegn því. Alríkislögreglan kvaðst hafa miklar áhyggjur af því að í skjalinu væri sleppt „mikilvægum staðreyndum sem hafa áhrif á nákvæmni minnisblaðsins í grundvallaratriðum“.

Í minnisblaði Nunes eru yfirmenn FBI og embættismenn ráðuneytisins sakaðir um að hafa ekki veitt dómurum, sem heimiluðu njósnirnar um Page, nægar upplýsingar um gögnin sem beiðnin um heimildina var reist á. Hún byggðist að minnsta kosti að hluta á upplýsingum frá fyrrverandi breskum leyniþjónustumanni, Christopher Steele. Margir hafa dregið þessar upplýsingar í efa og skýrt hefur verið frá því að Steele fékk greiðslur frá tveimur fyrirtækjum sem demókratar höfðu fengið til að afla gagna sem gætu skaðað Trump í kosningabaráttunni. Nunes segir að með því að upplýsa ekki dómstólinn um þessi tengsl Steele við demókrata og andstöðu hans við Trump hafi embættismenn FBI og dómsmálaráðuneytisins leynt pólitískum ástæðum beiðninnar. Í minnisblaðinu segir m.a. að Steele hafi sagt hátt settum embættismanni í ráðuneytinu að hann hygðist láta einskis ófreistað til að koma í veg fyrir að Trump yrði forseti.

The Wall Street Journal segir hins vegar að embættismenn FBI og ráðuneytisins hafi sagt dómurum frá því að rannsóknin á Page tengdist mönnum eða hópum sem hefðu pólitískra hagsmuna að gæta eða tengdust stjórnmálum.

Heimildin endurnýjuð þrisvar

The Wall Street Journal segir að bandarískir leyniþjónustumenn hafi fylgst með Page frá árinu 2013 þegar rússneskir njósnarar hefðu reynt að fá hann í þjónustu sína. Blaðið bendir á að FBI óskaði eftir heimildinni til að njósna um Page í október 2016, rúmum mánuði eftir að hann lét af störfum sem ráðgjafi Trumps eftir að fjölmiðlar sögðu frá meintum tengslum hans við Rússa. Í minnisblaði Nunes kemur einnig fram að dómstóllinn endurnýjaði njósnaheimildina þrisvar næstu mánuðina og það bendir til þess að fleiri en einn dómari hafi komið að málinu og talið að njósnirnar hefðu borið árangur. Page hefur þó ekki verið ákærður fyrir lögbrot.

Trump hefur sagt á Twitter að minnisblað Nunes afsanni ásakanirnar um að aðstoðarmenn hans hafi tengst stjórnvöldum í Rússlandi. Nokkrir repúblikanar hafa dregið þá fullyrðingu í efa, þ.á m. fulltrúadeildarþingmaðurinn Trey Gowdy, sem sagði að rannsóknin á Rússlandsmálinu héldi áfram „án skjalanna frá Steele“. Hann kvaðst bera mikið traust til FBI og dómsmálaráðuneytisins.

Óttast að Trump ljúgi
» Lögfræðingar Trumps forseta hafa hvatt hann til að neita að svara spurningum Roberts Muellers, sérstaks saksóknara, sem rannsakar meint tengsl aðstoðarmanna Trumps við stjórnvöld í Rússlandi.
» Blaðið hefur eftir fjórum heimildarmönnum að lögfræðingarnir hafi meðal annars áhyggjur af því að forsetinn veiti rangar upplýsingar og verði ákærður fyrir að ljúga að rannsóknarmönnum.