15 mörk Maður leiksins, Martha Hermannsdóttir, fagnar sigrinum. Sonur hennar á þriðja ári, Bjarki Fannar Heimisson, lætur sér fátt um finnast.
15 mörk Maður leiksins, Martha Hermannsdóttir, fagnar sigrinum. Sonur hennar á þriðja ári, Bjarki Fannar Heimisson, lætur sér fátt um finnast. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
KA/Þór tryggði sér sæti í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í handbolta, Coca Cola-bikarsins, í annað skipti með öruggum 35:24-sigri á Fjölni í gærkvöld. KA/Þór leikur í næstefstu deild og Fjölnir þeirri efstu og koma úrslitin því einhverjum á óvart.

KA/Þór tryggði sér sæti í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í handbolta, Coca Cola-bikarsins, í annað skipti með öruggum 35:24-sigri á Fjölni í gærkvöld. KA/Þór leikur í næstefstu deild og Fjölnir þeirri efstu og koma úrslitin því einhverjum á óvart.

KA/Þór var síðast í undanúrslitum keppninnar árið 2009 en tapaði þá fyrir FH, 36:21.

Norðankonur byrjuðu mun betur og komust í 7:2 eftir aðeins átta mínútur. Staðan í hálfleik var 20:15 og voru Fjölniskonur ekki líklegar til að jafna leikinn eftir það. Martha Hermannsdóttir gerði sér lítið fyrir og skoraði 15 mörk fyrir KA/Þór og Berglind Benediktsdóttir skoraði átta mörk fyrir Fjölni.

Úrvalsdeildarliðin Haukar og Fram eru einnig komin áfram í undanúrslit eftir sigra á 1. deildar liðum í átta liða úrslitum. Haukar höfðu betur gegn HK, 25:18, og Fram sigraði ÍR, 32:26.

Haukar voru með frumkvæðið í Digranesinu gegn HK allan tímann og var staðan í hálfleik 14:9. Birta Lind Jóhannsdóttir skoraði fimm mörk og þær Ragnheiður Sveinsdóttir og Þórhildur Braga Þórðardóttir gerðu fjögur mörk hvor fyrir Hauka. Berglind Þorsteinsdóttir, Þórunn Friðriksdóttir og Kolbrún Anna Garðarsdóttir skoruðu þrjú mörk hver fyrir HK.

Íslandsmeistarar Fram voru sömuleiðis ávallt skrefum á undan ÍR er þau mættust í Austurbergi. Staðan í hálfleik var 16:12. Ragnheiður Júlíusdóttir, Guðrún Þóra Hálfdánsdóttir og Elísabet Gunnarsdóttir skoruðu allar fimm mörk fyrir Fram, en Karen Tinna Demian var langmarkahæst hjá ÍR með 12 mörk. sport@mbl.is