Baksvið Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Stjórn Arion banka hyggst leggja það fyrir hluthafafund í næstu viku að henni verði veitt heimild til þess að greiða út allt að 25 milljarða króna í formi arðgreiðslu til hluthafa.

Baksvið

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Stjórn Arion banka hyggst leggja það fyrir hluthafafund í næstu viku að henni verði veitt heimild til þess að greiða út allt að 25 milljarða króna í formi arðgreiðslu til hluthafa. Tillagan hangir saman við aðra tillögu þess efnis að bankanum verði heimilt að kaupa allt að 10% hlut í sjálfum sér á gengi sem gæti verið allt að 94,177 krónum á hvern hlut. Verði af slíkum viðskiptum, á því gengi, jafnast það á við að bankinn sé metinn á genginu 0,85 af bókfærðu eiginfé hans. Ef bankinn myndi fullnýta heimild sína í þessa veru gæti kaupverð eiginbréfa numið allt að 18,8 milljörðum króna.

Samanlagt geta kaupin á eigin bréfum og arðgreiðslan hins vegar ekki numið hærri fjárhæð en sem nemur 25 milljörðum króna.

Þá er einnig áskilið að hin sértæka arðgreiðsla muni ekki eiga sér stað nema Kaupskilum takist að selja að minnsta kosti 2% í bankanum fyrir dagslok 15. apríl næstkomandi.

Ljóst er af tillögunni að þeir aðilar sem verða í hlutahafahópnum í kjölfar þess að fyrrnefnd skilyrt sala á sér stað, munu njóta hlutdeildar í arðgreiðslunni í hlutfalli við eignarhlut sinn.

Gulli slegin gulrót

Heimildir Morgunblaðsins herma að tvíþætt markmið liggi að baki tillögunni sem lögð verður fyrir hluthafafund á mánudag í næstu viku. Annars vegar sé talið brýnt að koma frekara skikki á fjármagnsskipan bankans sem sé afar vel fjármagnaður um þessar mundir. Hins vegar sé tillagan til þess gerð að gera kaup lífeyrissjóða í bankanum álitlegri en ella væri.

Þannig vinnur Kvika nú að því hörðum höndum, fyrir hönd Kaupskila sem fara með 57% hlut í Arion banka, að fá lífeyrissjóði til þess að kaupa hlut í bankanum. Er það talið mikilvægt skref á þeirri vegferð að skrá bankann á markað hér heima og erlendis síðar á þessu ári. Í janúar sendi Kvika fyrir hönd Kaupskila tilboð á sjóðina þar sem miðað var við að sjóðirnir keyptu, samanlagt að minnsta kosti 5% hlut í bankanum og að gengið í viðskiptunum væri um 0,8 af bókfærðu eigin fé bankans, eins og það stóð í lok þriðja ársfjórðungs í fyrra.

Gætu fengið 14% strax til baka

Nái Kvika að selja lífeyrissjóðum 5% hlut í Arion banka má gera ráð fyrir því að söluandvirðið verði um 8,9 milljarðar króna. Sú fjárhæð myndi hækka í hlutfalli við stærri eignarhlut, yrði raunin sú að sjóðirnir vildu tryggja sér stærri hlut í bankanum.

Yrði af hreinni arðgreiðslu úr bankanum að fjárhæð 25 milljarðar króna má gera ráð fyrir því að 1,25 milljarðar rynnu til hinna nýju eigenda. Það þýddi að þeir fengju í einni svipan 14% kaupverðsins til baka í formi reiðufjár, skömmu eftir kaupin.

Fremur áhugalausir að sinni

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eiga Kaupskil í viðræðum við nokkra sjóði um möguleg kaup þeirra í bankanum. Hins vegar hafa stærstu sjóðir landsins lítið sýnt á spilin. Áreiðanlegar heimildir Morgunblaðsins herma hins vegar að lífeyrissjóðurinn Gildi hafi hafnað fyrirliggjandi tilboði sem sjóðnum barst í lok janúar. Þá herma heimildir að margir sjóðanna líti svo á að á meðan bréf í bankanum séu ekki skráð á markað sé rétt að flýta sér hægt. Réttara kunni að vera fyrir sjóðina að bíða átekta og sjá hvort af skráningu hans á markað verður. Þá komi hins vegar vel til greina að stíga inn í hóp eigenda, þótt það kunni að gerast á hærra verði en bjóðist í dag.