Methafi Aníta Hinriksdóttir stórbætti Íslandsmetið í 1.500 metra hlaupi.
Methafi Aníta Hinriksdóttir stórbætti Íslandsmetið í 1.500 metra hlaupi.
Aníta Hinriksdóttir úr ÍR náði glæsilegum árangri í 1.500 metra hlaupi á PSD Bank Meeting-mótinu í Düsseldorf í Þýskalandi í gær. Hún hafnaði í 5. sæti í afar sterku hlaupi, á tímanum 4:09,54 mínútum og bætti í leiðinni eigið Íslandsmet í 1.

Aníta Hinriksdóttir úr ÍR náði glæsilegum árangri í 1.500 metra hlaupi á PSD Bank Meeting-mótinu í Düsseldorf í Þýskalandi í gær. Hún hafnaði í 5. sæti í afar sterku hlaupi, á tímanum 4:09,54 mínútum og bætti í leiðinni eigið Íslandsmet í 1.500 metra hlaupi innanhúss um rétt tæplega tíu sekúndur.

Fyrra metið setti Aníta í byrjun ársins 2014, er hún hljóp á 4:19,31 mínútu. Aníta sagði í samtali við Morgunblaðið á dögunum að hún hefði það opið að gera 1.500 metra hlaup að sinni aðalgrein, en hún hefur síðustu árin svo gott sem einbeitt sér að 800 metra hlaupi. Frammistaðan gefur svo sannarlega góð fyrirheit fyrir framtíð Anítu í greininni. Beatrice Chepkoech frá Kenía kom fyrst í mark á 4:04,21 mínútu og setti í leiðinni nýtt lands- og mótsmet. Angelika Cichocka frá Póllandi hafnaði í 2. sæti og Winny Chebet, Kenía, í 3. sæti.

Tími Anítu er nægilega góður til að tryggja henni keppnisrétt í greininni á HM innanhúss sem haldið verður í Birmingham í mars. Lágmarkið er 4:11,00 mínútur. Aníta gæti þá þurft að velja hvort hún keppi þar í 1.500 metra hlaupi eða 800 metra hlaupi. Telja má ólíklegt að hún myndi keppa í báðum greinum á stórmóti.

Aníta á Íslandsmetin í 1.500 metra hlaupi bæði innan- og utanhúss en síðasta sumar hljóp hún 1.500 metra á 4:06,43 mínútum. Hún á vitaskuld einnig bæði metin í 800 metra hlaupi. sport@mbl.is