Stefanía Ólöf Antoníusdóttir fæddist á Berunesi á Berufjarðarströnd 13. febrúar 1941. Hún lést á heimili sínu á Hjúkrunarheimilinu Hömrum í Mosfellsbæ 28. janúar 2018.

Foreldrar hennar voru hjónin Antonía Sigríður Sigurðardóttir, f. á Berunesi 29. maí 1905, d. 4. desember 1993, og Antoníus Ólafsson, f. á Skála á Berufjarðarströnd 6. janúar 1907, d. 4. apríl 1994. Þau bjuggu allan sinn búskap á Berunesi.

Systkini Stefaníu eru Hanna Sigríður, f. 1937, Anna, f. 1943, og Óskar, f. 1946, d. 2015. Auk þess átti Stefanía uppeldissystur, Svövu Júlíusdóttur, f. 1930, d. 2006.

Stefanía ólst upp hjá foreldrum sínum á Berunesi og átti þar heimilisfesti til ársins 1973 er hún fluttist í dvalarheimili Sjálfsbjargar í Hátúni 12 í Reykjavík og var ein af fyrstu dvalargestunum þar. Eftir tveggja áratuga vist á dvalarheimilinu, eða árið 1993, flutti hún fyrst íbúa af dvalarheimilinu í æfingaíbúð sem Sjálfsbjörg hafði útbúið í Hátúni 12. Eftir sex mánaða þjálfun þar ákvað hún að taka íbúð á leigu á 5. hæð í sama húsi og bjó þar á eigin vegum fram til ársins 2013, eða þar til hún fluttist að hjúkrunarheimilinu Hömrum í Mosfellsbæ.

Útför Stefaníu fer fram frá Laugarneskirkju í dag, 7. febrúar 2018, klukkan 13.

Elsku Stefanía frænka.

Þó að þú sért nú lögð af stað í þitt hinsta ferðalag yfir móðuna miklu þá hefur þú skilið eftir fagrar minningar í hjörtum okkar sem höfum orðið þess heiðurs aðnjótandi að ferðast með þér um lífsins braut.

Við minnumst röndótta brjóstsykursins sem þú bauðst okkur upp á í Hátúni og þeirra augnablika þegar hrekkjalómurinn innra með þér læddist fram í fingurgómana og kitlaði okkur undir iljarnar þar sem við lágum í sófanum og lásum.

Við dáumst að afrakstri iðjusemi þinnar hvort sem það eru vettlingarnir á höndunum á okkur eða heklaði dúkurinn á stofuborðinu.

Við söknum þín sem varst okkur alltaf svo góð.

Þórunn Björk og Börkur.