Sú skilyrta arðgreiðsla sem stjórn Arion banka hefur ákveðið að leggja fyrir hluthafafund í næstu viku mun, gangi fyrirætlanir stjórnarinnar eftir, færa ríkissjóði milljarða króna í formi greiðslu inn á skuldabréf sem er í eigu þess.

Sú skilyrta arðgreiðsla sem stjórn Arion banka hefur ákveðið að leggja fyrir hluthafafund í næstu viku mun, gangi fyrirætlanir stjórnarinnar eftir, færa ríkissjóði milljarða króna í formi greiðslu inn á skuldabréf sem er í eigu þess.

Skuldabréfið sem um ræðir var gefið út af Kaupþingi í tengslum við hin svokölluðu stöðugleikaskilyrði. Þau skilyrði voru lögð fram og samþykkt af hálfu kröfuhafa föllnu viðskiptabankanna þriggja þegar ríkissjóður greiddi götu þeirra að samþykkt nauðasamninga á árinu 2015.

Hluti þeirra skilyrða sem sneru að Kaupþingi var fyrrnefnt skuldabréf sem var liður í svokölluðu fjársópsákvæði. Það felur í sér að Kaupþingi ber að greiða skuldabréfið upp á þremur árum með fjármunum sem falla til vegna arðgreiðslna út úr Arion banka eða söluandvirðis á hlutum í bankanum.

Þannig leiðir ákvæðið til þess að hlutdeild Kaupskila/Kaupþings í arðgreiðslunni sem nú er fyrirhuguð mun renna sem innborgun á skuldabréfið. Með sama hætti mun kaupvirði þess hlutar sem bankinn er reiðubúinn að ráðast í á eigin bréfum renna inn á skuldabréfið ef seljandi hlutarins verður Kaupskil.

Þannig má gera ráð fyrir að ef lífeyrissjóðir kaupa 5% í bankanum af Kaupskilum og arðgreiðslan verður 25 milljarðar, þá muni 13 milljarðar renna inn á skuldabréfið.

Sem stendur eiga Kaupskil enn eftir að greiða 35 milljarða inn á fyrrnefnt skuldabréf en það ber 5,5% vexti samkvæmt stöðugleikasamkomulaginu sem gert var um mitt ár 2015.