[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Líkur eru á því að óánægðir sjálfstæðismenn í Vestmannaeyjum bjóði fram sérlista við bæjarstjórnarkosningarnar á vori komanda.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Líkur eru á því að óánægðir sjálfstæðismenn í Vestmannaeyjum bjóði fram sérlista við bæjarstjórnarkosningarnar á vori komanda. Flokkurinn í Eyjum er klofinn í herðar niður vegna átaka sem urðu um það hvernig ætti að velja fólk á lista flokksins. Þeir sem vildu prófkjör urðu undir í atkvæðagreiðslu og sætta sig ekki við niðurstöðuna.

Elís Jónsson, einn hinna óánægðu, telur yfirgnæfandi líkur á að „aukaframboð“ sjálfstæðismanna verði í boði í vor. Hann viðurkennir að málið sé enn í umræðum manna á milli og ákvörðun hafi ekki verið tekin. „Þetta fer enn mjög hljótt og það er gert meðvitað,“ segir Elís.

Elliði Vignisson bæjarstjóri hefur lýst því yfir að hann gefi kost á sér áfram í efsta sæti listans. Hann segist ekki vita um hvað málið snúist og eiga því erfitt með að tjá sig. Hann telur að framboðið sé enn spjall á kaffistofum, hann hafi að minnsta kosti ekki heyrt nöfn hugsanlegra frambjóðenda eða hvaða málefni slíkt framboð stæði fyrir.

Rætt við Írisi

Íris Róbertsdóttir, sem var varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins á síðasta kjörtímabili og situr í miðstjórn, hefur verið nefnd sem hugsanlegur oddviti sérframboðs. Hún segist vita um óánægju í flokknum út af prófkjörsmálum og umræðu um nýtt framboð. Rætt hafi verið við hana um framboð en hún vilji ekki svara því af eða á hvort það komi til greina.

Elís Jónsson segist ekki munu skorast undan að taka að sér forystu nýs framboðs en getur einnig hugsað sér annað frambærilegt fólk í það hlutverk.

Sjálfstæðismenn í Eyjum hafa ekki viðhaft prófkjör við val á lista í 28 ár. Prjófkjör náðist ekki fram fyrir fjórum árum og tillaga um það var felld á fundi fulltrúaráðsins í janúar með 28 atkvæðum gegn 26. Óánægjan gaus upp eftir að það lá fyrir og sannarlega er það aðalástæða umræðna um nýtt framboð. Jón Á. Ólafsson sjálfstæðismaður segir þó að rætur óánægjunnar séu dýpri. Ekki hafi náðst sættir milli fólks eftir síðustu uppstillingu.

Elís Jónsson, sem barðist fyrir prófkjörshugmyndinni í fulltrúaráðinu, segir að málið snúist einnig um að endurnýja forystu flokksins. Nefnir hann að Elliði bæjarstjóri hafi verið í forystu í 12 ár, sem sé ágætis tími. Einhverjir vilji hreinlega skipta um forystu.