Kátur Guðmundur Þórður Guðmundsson var léttur í lund á fréttamannafundinum í gær en Guðmundur B. Ólafsson, formaður Handknattleikssambands Íslands, kynnti hann þar til leiks sem landsliðsþjálfara karla til þriggja ára.
Kátur Guðmundur Þórður Guðmundsson var léttur í lund á fréttamannafundinum í gær en Guðmundur B. Ólafsson, formaður Handknattleikssambands Íslands, kynnti hann þar til leiks sem landsliðsþjálfara karla til þriggja ára. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Landsliðið Kristján Jónsson kris@mbl.is Guðmundur Þórður Guðmundsson tók í gær við karlalandsliðinu í handknattleik í þriðja sinn á þjálfaraferlinum, en tilkynnt var um ráðningu hans á blaðamannafundi.

Landsliðið

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Guðmundur Þórður Guðmundsson tók í gær við karlalandsliðinu í handknattleik í þriðja sinn á þjálfaraferlinum, en tilkynnt var um ráðningu hans á blaðamannafundi. Guðmundur er 57 ára gamall og hefur landsliðið verið stór hluti af hans ævi. Hann stýrði liðinu í liðlega níu ár, ekki samfleytt, var aðstoðarlandsliðsþjálfari í eitt og hálft ár og var sjálfur landsliðsmaður í tæpan áratug. En nú eru þó fimm og hálft ár frá því að Guðmundur stýrði landsliðinu síðast en það var í tvíframlengdum leik gegn Ungverjalandi í 8-liða úrslitum á Ólympíuleikunum í London í ágúst 2012.

„Ég hef verið meira eða minna erlendis frá árinu 2009 og hef prófað svo margt. Þjálfaði félagslið bæði í Þýskalandi og Danmörku meðan ég var með íslenska landsliðið en síðan danska landsliðið og Barein. Mér hefur alltaf liðið vel í þessu starfi sem landsliðsþjálfari Íslands og hef notið þess. Yfirleitt hefur umgjörðin verið góð og andinn góður. Ég hef notið þess að starfa með leikmönnunum. Það er eiginlega það frekar en nokkuð annað sem olli því að ég var tilbúinn til viðræðna á þessum tíma. Ég á góðar minningar frá tíma mínum með landsliðinu en um leið tel ég mig hafa ýmislegt fram að færa. Ég tel mig geta hjálpað liðinu og myndi ekki gera þetta ef svo væri ekki,“ sagði Guðmundur þegar Morgunblaðið ræddi við hann á fundinum í gær.

Spurður um hvort hann komi til með að breyta miklu í leik íslenska liðsins segir Guðmundur svolítið snemmt að segja til um það. Hann sér þó ekki fyrir sér að heppilegt sé að umbylta leikskipulaginu þegar nokkrir mánuðir séu í umspilsleikina gegn Litháen um sæti í lokakeppni HM í janúar 2019.

„Það er nokkuð snemmt að segja til um það en ég hef ákveðnar hugmyndir um hvað ég vil gera. Ég mun móta þær enn frekar þegar ég hef skoðað liðið og myndað mér skoðanir á því sem liðið var að gera í síðustu leikjum og hvaða breytingar ég vil sjá. Ég hef ekki mikinn tíma og maður þarf að passa sig á því að umbylta ekki hlutum. En einhverjar breytingar verða, það er ljóst,“ útskýrði Guðmundur.

Svensson er fagmaður

Gunnar Magnússon verður aðstoðarþjálfari, en hann er öllum hnútum kunnugur. Var í þjálfarateymi Guðmundar þegar liðið vann til verðlauna á Ólympíuleikunum 2008 og EM árið 2010. Guðmundur lýsti þeirri skoðun sinni á fundinum að Gunnar væri „afburðaþjálfari“. Þá var Gunnar aðstoðarþjálfari Arons Kristjánssonar frá 2012 til 2016. Auk þess er áhugavert útspil í þessari ráðningu því að Svíinn Tomas Svensson verður markmannsþjálfari og kemur einnig að styrktarþjálfun. Sá var geysilega sigursæll leikmaður með bæði félagsliðum og landsliði og kemur þá væntanlega með gott viðhorf og eftirsóknarverða reynslu inn í íslenska hópinn.

„Þetta er náttúrlega maður sem orðið hefur heims- og Evrópumeistari með sænska landsliðinu auk þess að vinna Meistaradeild Evrópu sex sinnum. Hann kemur auðvitað með gríðarlega góðan anda inn í liðið og er metnaðarfullur. Svensson er afskaplega mikill fagmaður. Það hjálpar ekki bara markvörðunum heldur öllum leikmönnunum. Þess vegna er ég mjög sáttur við að þetta skuli hafa tekist. Hann mun starfa verkefnatengt fyrir HSÍ og þetta hentar því mjög vel,“ sagði Guðmundur, sem hefur starfað með Svensson árum saman.

Erfið símtöl til Barein

Eins og fram kom í Morgunblaðinu á dögunum átti Guðmundur þess kost að þjálfa Barein áfram. Sagðist hann hafa átt erfið símtöl í gær þar sem hann greindi forsvarsmönnum handknattleikssambandsins þar í landi frá ákvörðun sinni. „Þeir vildu allt fyrir mig gera,“ sagði Guðmundur en gaf ekki mikið út á hvort enn fleiri möguleikar hefðu verið í stöðunni.

Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, sagði val sambandsins hafa staðið á milli þess að bjóða Guðmundi að taka við liðinu eða bjóða Geir Sveinssyni að halda áfram sem landsliðsþjálfari. Guðmundur B. sagði stjórn HSÍ hafa verið einhuga um þessa ákvörðun. Fram kom hjá formanninum að honum hefði ekki gefist tækifæri til að tilkynna Geir um ákvörðun HSÍ þar sem hann hefði ekki náð sambandi við Geir síðustu tvo daga.