Justin Trudeau
Justin Trudeau
Ekki verður sagt að þeir stjórnmálamenn sem skora hæst á mælistiku stjórnmálalegs rétttrúnaðar séu endilega í hópi hinna skemmtilegustu. En þeir komast sumir langt á blindum rétttrúnaði.

Ekki verður sagt að þeir stjórnmálamenn sem skora hæst á mælistiku stjórnmálalegs rétttrúnaðar séu endilega í hópi hinna skemmtilegustu. En þeir komast sumir langt á blindum rétttrúnaði.

Lýðræðið er ungt en jafnvel langt fram eftir stuttum líftíma þess þótti það meginforsenda þess að taka mætti stjórnmálamenn alvarlega að þeir væru sannanlega með leiðinlegustu mönnum. Það þótti gáfnamerki gott.

Þeir sem varð á að sýna smá snert af kímnigáfu áttu lengi vel erfitt uppdráttar. Þótt útlit lúti smekk, sem er mismunandi, þá er talið að Trudeau forsætisráðherra Kanada sé með snotrustu stjórnmálamönnum. Væri til embætti æðstaprests rétttrúnaðar fengi hann það án auglýsingar.

Á opnum fundi nýlega leiðrétti Trudeau konu sem talaði um „the mankind“ (mannkynið) og taldi betra að tala um „the peoplekind“ (fólkskynið).

Á Íslandi leysti höfundur Njálu þetta gervivandamál í eitt skipti fyrir öll þegar hann kunngerði að Bergþóra væri í senn „kvenskörungur“ og „drengur góður“.

Kannski þess vegna amast enginn karl við „móðurmálinu“, „móður jörð“, né því að móðureyrað sé þunnt þegar afkvæmið á í hlut. Og þótt körlum þyki vænt um börnin sín efast varla nokkur um að mildast sé móðurhjartað. Þeir hafa loks gefið eftir allt gort um karllegginn enda kvenleggurinn öruggari.