Nýja ferjan Er í smíðum í Póllandi og væntanleg hingað síðsumars.
Nýja ferjan Er í smíðum í Póllandi og væntanleg hingað síðsumars. — Tölvumynd/Crist SA Gdansk
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra hefur ekki tekið ákvörðun um nafn á nýrri Vestmannaeyjaferju. Hyggst ráðherra hlera sjónarmið heimamanna, að því er Jóhannes Tómasson upplýsingafulltrúi tjáði Morgunblaðinu.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra hefur ekki tekið ákvörðun um nafn á nýrri Vestmannaeyjaferju. Hyggst ráðherra hlera sjónarmið heimamanna, að því er Jóhannes Tómasson upplýsingafulltrúi tjáði Morgunblaðinu. Ráðherra mun hafa lokaorð um hvaða nafn verður fyrir valinu.

Vinnuhópurinn um hönnun og smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju ákvað nýlega að vinnuheiti nýju ferjunnar yrði Vilborg. Núverandi ferja, Herjólfur, myndi halda nafni sínu, en reiknað er með að hann verði hér áfram, a.m.k. fyrst um sinn.

Vefmiðillinn Eyjafréttir gerði óformlega könnun þegar þessi tíðindi bárust til Eyja. 110 manns tóku þátt. 64% af þeim vilja halda nafninu Herjólfur. 23% vildu nýja nafnið Vilborg. 13% völdu annað og þá komu ýmsar tillögur, oftast var stungið upp á nafninu Elliði. Fjörugar umræður urðu á netspjalli á vef Eyjafrétta um nafnið.

Þjóðsagan segir að í fyrndinni hafi Herjólfur búið í dal þeim á Heimaey sem við hann er kenndur. Hann var sá eini af eyjarbúum sem hafði gott vatnsból nærri bæ sínum og komu því margir þangað til að beiðast vatns, en hann vildi engum unna vatns nema við verði, segir sagan.

„Sagt er að Herjólfur hafi átt dóttur eina er Vilborg hét, og var hún að skapferli ólík föður sínum og þótti henni hann harðdrægur er hann seldi nábúum sínum vatnið. Stalst hún því til þess oft á nóttum þegar karl ei af vissi að gefa mönnum vatn.“

Vill smíðanefndin launa Vilborgu góðmennskuna með því að gefa nýja skipinu nafn hennar. sisi@mbl.is